Góður árangur þrátt fyrir erfiðar aðstæður

Viðskiptavinum Eignastýringar og miðlunar hélt áfram að fjölga og mikil ánægja var með verðbréfaviðskipti í appinu, aðrar tæknilausnir bankans sem og ýmsar nýjungar í gjaldeyrisviðskiptum. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður á mörkuðum var árangur við ávöxtun sjóða tiltölulega góður.

Miklar sveiflur einkenndu markaði á árinu 2022 og eitt af því sem vekur sérstaka eftirtekt er hversu mikill munur var á milli einstakra félaga á innlendum hlutabréfamarkaði. Sveiflan gat verið allt frá 25% hækkun á markaðsvirði í 55% lækkun innan ársins. Eins gerist það ekki oft að markaðsvirði hlutabréfa- og skuldabréfamarkaða lækki á sama tíma, líkt og raunin var árið 2022. Á hinn bóginn má benda á að velta á hlutabréfamarkaði árið 2022 var sú sama og árið 2021 sem er mjög áhugavert þar sem veltan árið 2021 var 90% meiri en árið á undan. Hlutdeild Landsbankans á skuldabréfamarkaði jókst um 28% á árinu 2022 á meðan heildarvelta skuldabréfamarkaðar jókst um 12%, eftir að hafa lækkað um 34% á árinu 2021.

Viðskiptavinum fjölgar enn

Líkt og hjá öðrum sjóðastýringafyrirtækjum lækkaði markaðsvirði sjóða Landsbréfa hf., dótturfélags bankans, samhliða lækkun á markaðsvirði hlutabréfa og skuldabréfa, en ávöxtunin var engu að síður tiltölulega góð ef miðað er við helstu samkeppnisaðila á markaði. Við þær sérstöku aðstæður sem ríktu á mörkuðum árið 2022, þ.e. að bæði varð lækkun á hlutabréfa- og skuldabréfamörkuðum, var snúið að ávaxta fjármuni. Þrátt fyrir áskoranir á mörkuðum er ánægjulegt, og til marks um hversu mikils trausts bankinn nýtur, að vel gekk að stofna til nýrra viðskiptasambanda í eignastýringu og hélt viðskiptavinum Eignastýringar Landsbankans áfram að fjölga.

Breytt hegðun á mörkuðum

Stór tímamót urðu haustið 2022 þegar íslenski hlutabréfamarkaðurinn var endurflokkaður hjá FTSE Russell. Eftir inntöku 15 innlendra félaga í FTSE Russel vísitöluna fór fjöldi erlendra fjárfesta að líta til Íslands sem fjárfestingarkosts, auk þess sem erlendir markaðsaðilar fengu beinan aðgang að Kauphöllinni. Samhliða þessu hefur orðið merkjanleg breyting á hegðunarmynstri á markaði. Við sjáum líka að eftir breytingu á gjaldeyrislögum 2021, þar sem hömlum á gjaldeyris- og afleiðuviðskiptum var að mestu aflétt, hefur orðið breyting á samsetningu fjárfesta og flæðis á markaðnum. Viðskiptavinir Landsbankans eru mjög ánægðir með nýja tegund gjaldeyrissamninga, svokallaða NDF-samninga sem einfalda til muna utanumhald og yfirsýn á hverjum tíma. Landsbankinn er með öflugasta gjaldeyrisborð landsins og aukin gjaldeyrisviðskipti hafa leitt til aukinna þjónustutekna.

Markaðurinn er síbreytilegur og mikilvægt að fylgjast með

„Að starfa í Markaðsviðskiptum Landsbankans er ákaflega fjölbreytt, skemmtilegt og krefjandi. Innan deildarinnar er sýslað með hlutabréf, skuldabréf, gjaldeyri, vexti og afleiður sem þeim tengjast á innlendum og erlendum mörkuðum. Hver dagur getur verið ólíkur þeim síðasta, markaðurinn er síbreytilegur og fjölmargir áhrifaþættir sem spila þar inn í.

Einföldum viðskiptavinum lífið

Við höldum áfram að einfalda viðskiptavinum lífið. Við bjóðum fjölbreytta þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta sem auðvelt er að nýta sér í appinu og netbankanum eða með því að hafa samband við okkar reynslumiklu sérfræðinga.

Mikil ánægja er með þær uppfærslur sem við gerðum á verðbréfavirkni í appinu og netbankanum á árinu sem endurspeglast m.a. á aukinni notkun viðskiptavina á þessum lausnum. Árið 2022 varð 15% aukning á stofnun áskrifta í sjóðum í sjálfsafgreiðslu og undir lok árs 2022 stofnuðu viðskiptavinir til áskrifta að sjóðum í sjálfsafgreiðslu í yfir 90% tilvika. Sömu sögu er að segja af stofnun verðbréfasamninga en 90% þeirra voru stofnaðir í sjálfsafgreiðslu.

Vönduð fræðsla um verðbréfaviðskipti

Við leggjum mikla áherslu á vandaða og trausta fjármálafræðslu og birtum m.a. þrjár fræðslugreinar um verðbréfaviðskipti sem fengu góðar viðtökur. Í greinunum var fjallað um fyrstu skref fjárfestinga í verðbréfum. Í myndböndum með greinunum er fjallað almennt um verðbréfafjárfestingar, það sem gott er að vita áður en þú kaupir í sjóði og hvernig fjárfesti ég í verðbréfum.

Góður gangur hjá Landsbréfum

Rekstur Landsbréfa gekk vel á árinu þrátt fyrir krefjandi aðstæður á flestum þeim mörkuðum sem sjóðir félagsins starfa á. Ávöxtun sjóða félagsins var almennt ásættanleg í ljósi markaðsaðstæðna og tiltölulega góð í samanburði við samkeppnisaðila. Stríðið í Úkraínu, vaxandi verðbólga í heiminum og hökt í aðfangakeðjum í kjölfar heimsfaraldurs Covid-19, auk fleiri þátta, hafði þau áhrif að bæði skuldabréfa- og hlutabréfamarkaðir skiluðu flestir neikvæðri ávöxtun. Á slíkum tímum skiptir þolinmæði og virk stýring vel dreifðra eignasafna lykilmáli.

Landsbréf eru í leiðandi stöðu á íslenskum sjóðamarkaði og hefur starfsfólk lagt sig fram við að standa undir því trausti sem þúsundir sjóðfélaga hafa sýnt félaginu. Þó markaðir hafi verið krefjandi bætast stöðugt nýir hlutdeildarskírteinishafar í hóp ánægðra viðskiptavina.

Hægt að velja um 40 sjóði

Landsbréf ráku í árslok alls 40 sjóði, bæði verðbréfasjóði og sérhæfða sjóði. Er sjóðaframboð Landsbréfa orðið mjög breitt og býður upp á fjárfestingarkosti sem henta flestum fjárfestum. Á árinu var einn nýr sjóður stofnaður, Landsbréf - Einkabréf E hs., sérhæfður sjóður sem er ætlaður viðskiptavinum Einkabankaþjónustu Landsbankans. Sjóðurinn fjárfestir eingöngu í erlendum fjármálagerningum og er áhersla lögð á fjárfestingar í hlutabréfum og hlutabréfasjóðum. Ýmislegt er á döfinni og búast má við fleiri nýjungum í vöruframboði Landsbréfa á næstu misserum.

Nýr framtakssjóður hóf fjárfestingar

Framtakssjóðir Landsbréfa hafa á undanförunum árum fjárfest með góðum árangri sem umbreytingar- og áhrifafjárfestir í innlendum fyrirtækjum. Sem dæmi má nefna framtakssjóðinn Horn II slhf. sem var slitið á árinu 2022. Árangur sjóðsins var framúrskarandi en sjóðurinn skilaði hluthöfum sínum 25% árlegri ávöxtun (e. IRR) á líftíma sínum. Nýr framtakssjóður Landsbréfa, Horn IV slhf., hóf fjárfestingar á árinu en fjárfestingartímabil sjóðsins er til loka júlí 2025 og áætlaður líftími er út árið 2031.

Búast má við að staðan á eignamörkuðum verði áfram krefjandi. Það er ekki hvað síst á slíkum tímum sem gildi traustrar eignastýringar getur ráðið úrslitum. Í þeim efnum ætla Landsbréf áfram að vera í fararbroddi.

Spjallað um heimshagkerfið með Goldman Sachs

Í ágúst héldum við hádegisverðarfund fyrir viðskiptavini með James Ashley, forstöðumanni stefnumála og ráðgjafalausna fyrir Evrópu, Miðausturlönd, Afríku og Asíu hjá eignastýringu Goldman Sachs. Fundurinn var afar vel heppnaðar og umræðurnar voru fjörlegar. Í kjölfarið var Ashley gestur Umræðunnar, hlaðvarps Landsbankans, þar sem hann fór nánar yfir stöðuna.

Lífeyrissparnaður jókst um 4%

Við bjóðum fjölbreyttar ávöxtunarleiðir fyrir lífeyrissparnað, hvort sem um er að ræða skyldulífeyrissparnað eða séreignarsparnað. Um leið bjóðum við mjög víðtæka og góða þjónustu varðandi allt sem lýtur að þessum mikilvæga þætti fjármálanna. Þannig geta viðskiptavinir t.d. fylgst með þróun lífeyrissparnaðar í Landsbankaappinu ásamt því að skoða upplýsingar um inneign sína, hreyfingar og réttindi. Á sjóðfélagavefnum geta viðskiptavinir afgreitt sig sjálfir, sótt um lífeyrissparnað, breytt sparnaði, sótt um útgreiðslu og skoðað yfirlit.

Á árinu 2022 bættum við þjónustuna enn frekar, m.a. með því að uppfæra lífeyrisreiknivélina á vef bankans með það að leiðarljósi að auðvelda viðskiptavinum okkar að sjá fyrir sér þær lífeyrisgreiðslur sem búast má við þegar starfsævinni líkur. Útreikningurinn sýnir skýrt hvernig greiðslur munu líta út miðað við þær forsendur sem settar eru í reiknivélina.

Fyrsti sjóðurinn til að birta ítarlegar sjálfbærniupplýsingar

Íslenski lífeyrissjóðurinn, sem er í rekstri hjá bankanum, birti á árinu upplýsingar um hvernig sjálfbærnimálum er háttað hjá þeim fyrirtækjum og sjóðum sem sjóðurinn fjárfestir í. Einnig birti sjóðurinn upplýsingar um hversu mikil losun gróðurhúsalofttegunda á sér stað vegna innlends fjárfestingarsafns sjóðsins. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem íslenskur lífeyrissjóður birtir svo nákvæmar upplýsingar um sjálfbærnimál vegna fjárfestinga sinna.

Tilgangurinn með stefnu sjóðsins í sjálfbærnimálum er að búa til skilvirka og trúverðuga nálgun á álitaefni sem snúa að sjálfbærni og ábyrgum fjárfestingum. Umhverfismál, félagslegir þættir og stjórnarhættir eru lykilþættir í mati sjóðsins á fjárfestingum og við teljum að fyrirtæki sem taka sérstakt tillit til þessara þátta í starfsemi sinni muni njóta ávinnings til lengri tíma litið.

Með því að greina og birta þessar upplýsingar getum við, sjóðfélagar og aðrir fylgst með þróun mála. Þannig erum við í betri stöðu til að koma auga á tækifæri til að veita aðhald og styðja fyrirtæki sem við fjárfestum í við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Fjögur heimsmarkmið í forgrunni

Stefna Íslenska lífeyrissjóðsins tekur mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Sjóðurinn hefur ákveðið að leggja sérstaka áherslu á jafnrétti kynjanna, loftslagsmál, nýsköpun og ábyrga neyslu og framleiðslu. Því verða heimsmarkmið nr. 5 (jafnrétti kynjanna), nr. 9 (nýsköpun og uppbygging), nr. 12 (ábyrg neysla og framleiðsla) og nr. 13 (aðgerðir í loftslagsmálum) í forgrunni við mat og greiningu fjárfestingarkosta.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur