Hópurinn, sem telur ellefu einstaklinga, skiptist í grunninn í tvennt, verðbréfaviðskipti og gjaldeyrisviðskipti. Báðar hliðar eiga það sameiginlegt að starfið snýst um að framkvæma viðskipti á sem bestan hátt, viðhalda viðskiptasamböndum, ná í nýja viðskiptavini og fylgjast vel með þróun á mörkuðum og nýjungum sem hægt er að bjóða upp á. Framþróun á vörum er veigamikill hluti af starfseminni og hefur skilað góðum vexti og fjölmörgum nýjum viðskiptavinum. Í lok árs 2022 hleyptum við t.d. af stokkunum sjálfsafgreiðslukerfi í gjaldeyrisviðskiptum. Viðskiptavinir sjá strax verðtilboð og geta gengið frá viðskiptum á einfaldan og fljótlegan hátt. Viðskiptavinir sem hafa prófað kerfið eru mjög ánægðir með þessa lausn og nýta hana vel. Á undanförnum misserum hefur Landsbankinn kynnt ýmsar nýjungar í gjaldeyrisafleiðum og verðbréfaviðskiptum. Þær hafa einnig laðað til okkar fjölda viðskiptavina og sýna vel mikilvægi þróunar á vöruframboði.
Stór hluti starfsins felst í að hugsa um og fylgjast með breytingum á lögum og reglum og aðlaga starfsemi og verkferla að slíku. Það skiptir okkur miklu máli að uppfylla öll þau skilyrði sem okkar starfsemi eru sett, allt frá upphafi viðskiptasambands. Við gerum áreiðanleikakönnun, förum yfir þekkingu og reynslu viðskiptavina, flokkun þeirra og hvaða vörur eru tilhlýðilegar fyrir þá. Hið sama á við um framkvæmd viðskiptafyrirmæla á hverjum tíma en um þau gilda einnig strangar reglur.
Flestir nýir viðskiptavinir koma til okkar vegna frumkvæðis starfsfólks sem nýtir sín viðskiptasambönd og þekkingu á markaði til að afla þeirra. Við búum einnig svo vel að hafa allan bankann með okkur í liði. Eignastýring, Fyrirtækjasvið og Fyrirtækjaráðgjöf, Fyrirtækjamiðstöð og útibúanetið eru öflugir liðsfélagar þegar kemur að því að afla viðskiptavina og beina þeim til okkar.
Þrátt fyrir áskoranir á markaðnum á síðasta ári hefur verið mjög góður gangur hjá okkur. Á svona tímum er mikil krafa á starfsfólk að vera meðvitað um stöðuna á markaði og viðhalda þekkingu. Markaðurinn er lifandi og allt gengur þetta út á væntingar og þarfir okkar viðskiptavina. Við erum með reglulega upplýsinga- og stöðufundi með aðilum innan og utan deildar og með viðskiptavinum. Starfsfólk þarf að geta fylgst með mjög umfangsmiklu upplýsingastreymi og lesa í aðstæður á hverjum tíma til að vera sem best í stakk búið til að þjónusta viðskiptavini, upplýsa þá um stöðuna og hvers megi vænta.“