Helstu atriði ársreiknings
Hagnaður Landsbankans á árinu 2022 nam 17,0 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 28,9 milljarða króna á árinu 2021. Arðsemi eigin fjár var 6,3% á árinu 2022 eftir skatta, samanborið við 10,8% arðsemi árið áður.
Kennitölur | 31.12.2022 | 31.12.2021 |
---|---|---|
Hagnaður eftir skatta | 16.997 | 28.919 |
Hreinar rekstartekjur | 53.253 | 62.330 |
Hreinar vaxtatekjur | 46.464 | 38.953 |
Arðsemi eigin fjár fyrir skatta | 10,1% | 13,6% |
Arðsemi eigin fjár eftir skatta | 6,3% | 10,8% |
Eiginfjárhlutfall alls | 24,7% | 26,6% |
Eiginfjárgrunnur og hæfar skuldbindingar (e. MREL) | 40,4% | - |
Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna | 2,7% | 2,3% |
Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) | 46,8% | 43,2% |
Heildarlausafjárþekja | 134% | 179% |
Lausafjárþekja erlendra mynta | 351% | 556% |
Heildareignir | 1.787.024 | 1.729.798 |
Hlutfall útlána til viðskiptamanna af innlánum | 159,6% | 154,1% |
Meðaltal ársverka | 843 | 890 |
Ársverk í árslok | 813 | 816 |
Allar upphæðir eru í milljónum króna |
Eiginfjárhlutfall bankans í lok árs 2022 var 24,7% en var 26,6% í lok árs 2021. Eiginfjárkrafa bankans hækkaði úr 18,9% í 20,7% frá árslokum 2021 til 2022.
Í lok september 2022 birti skilavald Seðlabanka Íslands nýjustu ákvörðun sína um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar (MREL) fyrir Landsbankann. MREL-ákvörðun skilavaldsins felur í sér að bankinn þarf að uppfylla 22,8% MREL-kröfu, sem hlutfall af áhættugrunni bankans.
Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) á árinu 2022 var 46,8%, samanborið við 43,2% á árinu 2021.
Á árinu 2022 var vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna 2,7% samanborið við 2,3% árið á undan.
Hreinar vaxtatekjur námu 46,5 milljörðum króna samanborið við 39,0 milljarða króna 2021.
Hreinar þjónustutekjur Landsbankans námu 10,6 milljörðum króna árið 2022 samanborið við 9,5 milljarða króna á árinu 2021. Aðrar rekstrartekjur voru neikvæðar um 3,8 milljarða króna samanborið við rekstrartekjur upp á 13,9 milljarða króna á árinu 2021.
Rekstrarreikningur
Hagnaður Landsbankans á árinu 2022 nam 17,0 milljörðum króna eftir skatta.
Hreinar vaxtatekjur námu 46,5 milljörðum króna á árinu 2022 samanborið við 39,0 milljarða króna árið 2021. Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna nam 2,7% en var 2,3% árið áður.
Hreinar þjónustutekjur námu 10,6 milljörðum króna á árinu 2022 samanborið við 9,5 milljarða króna á árinu 2021.
Hrein virðisrýrnun fjáreigna á árinu var 2,5 milljarðar króna samanborið við virðisrýrnun upp á 7,0 milljarða króna árið 2021. Á árinu 2022 dró verulega úr óvissu um endanleg áhrif heimsfaraldurs Covid-19 á lánasafn bankans og því er það mat bankans að ekki sé lengur þörf á sérstöku safnframlagi, hvorki í virðisrýrnunarsjóð vegna útlána til ferðaþjónustu né útlána til annarra fyrirtækja.
Aðrar rekstrartekjur voru neikvæðar um 6,3 milljarða króna á árinu 2022 samanborið við 6,9 milljarða króna árið 2021. Þar vegur þyngst lækkun á gangvirði óskráðra eignarhluta bankans í Eyri Invest hf. um 10,5 milljarða króna en á árinu 2021 var hækkun upp á 2,1 milljarð króna.
Rekstrarreikningur (m. kr) | 2022 | 2021 | Breyting | % |
---|---|---|---|---|
Hreinar vaxtatekjur | 46.464 | 38.953 | 7.511 | 19% |
Hreinar þjónustutekjur | 10.623 | 9.483 | 1.140 | 12% |
Hrein virðisbreyting | 2.473 | 7.037 | -4.564 | -65% |
Aðrar rekstrartekjur og (gjöld) | -6.307 | 6.857 | -13.164 | -192% |
Rekstrartekjur samtals | 53.253 | 62.330 | -9.077 | -15% |
Laun og launatengd gjöld | -14.474 | -14.759 | 285 | -2% |
Annar rekstrarkostnaður | -9.289 | -9.105 | -184 | 2% |
Skattur á heildarskuldir fjármálafyrirtækja | -2.097 | -2.013 | -84 | 4% |
Rekstrargjöld samtals | -25.860 | -25.877 | 17 | 0% |
Hagnaður fyrir skatta | 27.393 | 36.453 | -9.060 | -25% |
Tekjuskattur | -10.396 | -7.534 | -2.862 | 38% |
Hagnaður ársins | 16.997 | 28.919 | -11.922 | -41% |
Rekstrargjöld voru 25,9 milljarðar króna á árinu 2022 samanborið við 25,9 milljarða króna á árinu 2021 og standa þau í stað frá fyrra ári. Aukin skilvirkni og fækkun stöðugilda undanfarin ár leiða til stöðugleika í rekstrarkostnaði. Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) fyrir árið reiknast 46,8%. K/T hlutfallið sýnir hlutfall rekstrarkostnaðar bankans á móti hreinum rekstrartekjum, að undanskildum virðisbreytingum fjáreigna. Stöðugildum í samstæðu bankans fækkaði um 3 á árinu 2022, úr 816 í 813.
Efnahagsreikningur
Heildareignir Landsbankans jukust um 57,2 milljarða króna á milli ára og námu í árslok 2022 alls 1.787 milljörðum króna.
Eignir (m.kr.) | 31.12.2022 | 31.12.2021 | Breyting | % |
---|---|---|---|---|
Sjóður og innstæður í Seðlabanka | 42.216 | 82.425 | -40.209 | -49% |
Markaðsskuldabréf | 125.265 | 150.435 | -25.170 | -17% |
Hlutabréf | 19.106 | 33.347 | -14.241 | -43% |
Útlán og kröfur á lánastofnanir | 28.621 | 47.231 | -18.610 | -39% |
Útlán og kröfur á viðskiptavini | 1.544.868 | 1.387.463 | 157.405 | 11% |
Aðrar eignir | 26.948 | 28.897 | -1.949 | -7% |
Samtals | 1.787.024 | 1.729.798 | 57.226 | 3% |
Helstu breytingar á eignahlið Landsbankans á árinu 2022 voru að útlán til viðskiptavina jukust um 11,3%, eða um 156,9 milljarða króna. Aukning var í útlánum til fyrirtækja og jukust þau um 92,0 milljarða króna á árinu 2022, sem jafngildir um 10% vexti þegar tekið hefur verið tillit til gengisáhrifa. Íbúðalán jukust um 59,0 milljarða króna en það hægði á eftirspurn á 4. ársfjórðungi.
Heildarvanskil fyrirtækja og heimila þróuðust á jákvæðan hátt á árinu 2022. Vanskil eru í sögulegu lágmarki og í árslok 2022 var vanskilahlutfallið í 0,2%.
Sjóður og innstæður í Seðlabanka lækkuðu um 40,2 milljarða króna á milli ára og námu í árslok 2022 alls 42,2 milljörðum króna.
Markaðsskuldabréfaeign bankans lækkaði um 25,2 milljarða króna á árinu. Útlán og kröfur á lánastofnanir lækkuðu um 18,6 milljarða á árinu og voru í árslok 28,6 milljarðar.
Skuldir og eigið fé (m.kr.) | 31.12.2022 | 31.12.2021 | Breyting | % |
---|---|---|---|---|
Skuldir við lánastofnanir og Seðlabanka | 6.634 | 10.425 | -3.791 | -36% |
Innlán frá viðskiptavinum | 967.863 | 900.098 | 67.765 | 8% |
Lántaka | 476.864 | 486.042 | -9.178 | -2% |
Aðrar skuldir | 34.819 | 29.803 | 5.016 | 17% |
Víkjandi lántaka | 21.753 | 20.785 | 968 | 5% |
Eigið fé | 279.091 | 282.645 | -3.554 | -1% |
Samtals | 1.787.024 | 1.729.798 | 57.226 | 3% |
Innlán frá viðskiptavinum eru stærsti hluti fjármögnunar bankans. Heildarinnlán námu 967,9 milljörðum króna í lok árs 2022 og jukust um 67,8 milljarða króna, eða 7,5% á milli ára. Innlánin eru að miklu leyti óverðtryggð og óbundin. Innlán frá fjármálafyrirtækjum lækkuðu lítillega á árinu, eða um 3,8 milljarða, og voru í árslok 6,6 milljarðar.
Markaðsfjármögnun bankans hefur einkum verið í formi alþjóðlegrar EMTN-skuldabréfaútgáfu og með útgáfu innlendra sértryggðra skuldabréfa. Bókfært virði þessarar fjármögnunar dróst saman um 9 milljarða króna á árinu 2022. Útgáfa sértryggðra skuldabréfa í heild hefur aukist í takt við vaxandi markaðshlutdeild í íbúðalánum og er orðin 44% af lántöku bankans.
Eigið fé Landsbankans í árslok 2022 var 279,1 milljarður króna samanborið við 282,6 milljarða króna í árslok 2021. Heildareignir námu 1.787 milljörðum króna í árslok 2022 og stækkaði efnahagsreikningurinn um 3,3%, eða um 57 milljarða króna á árinu.
Aðalfundur Landsbankans árið 2022, sem haldinn var þann 23. mars, samþykkti tillögu bankaráðs um að greiða arð til hluthafa vegna ársins 2021 sem næmi 0,61 krónu á hlut og að greiðslan verði tvískipt. Fyrri arðgreiðslan, 0,31 króna á hlut, var greidd til hluthafa þann 30. mars sl. og sú síðari, 0,30 krónur á hlut, var greidd þann 21. september sl. Arðgreiðslur þessar nema samtals 14,4 milljörðum króna. Einnig samþykkti aðalfundurinn tillögu bankaráðs um sérstaka arðgreiðslu að upphæð 0,26 krónur á hlut. Hún var greidd til hluthafa þann 28. apríl 2022 og nam í heild 6,1 milljarði króna.
Bankaráð Landsbankans mun leggja til við aðalfund þann 23. mars 2023 að greiddur verði arður til hluthafa sem nemur 0,36 krónum á hlut vegna rekstrarársins 2022, samtals 8,5 milljarðar króna. Arðgreiðslan samsvarar 50% af hagnaði samstæðu bankans á árinu 2022. Verði tillagan samþykkt munu arðgreiðslur Landsbankans á árunum 2013-2023 samtals nema 175,2 milljörðum króna.
Lausafjárstaða
Lausafjárstaða bankans í heild, í erlendum myntum og í einstökum myntum er vel umfram bæði lögbundin mörk og innri áhættumörk bankans. Hlutfall heildarlausafjárþekju var 134% í árslok, 99% í íslenskum krónum og 351% í erlendum myntum. Lausafjáreignir námu 185,8 milljörðum króna í lok árs 2022.
Lausafjárforði (m. kr.) | Lausafjárvirði 31.12.2022 | Lausafjárvirði 31.12.2021 | Breyting | % |
---|---|---|---|---|
Sjóður og innstæður í Seðlabanka | 41.838 | 79.271 | -37.433 | -47,2% |
Markaðsskuldabréf og önnur verðbréf veðhæf hjá Seðlabanka Íslands | 75.180 | 74.228 | 952 | 1,3% |
Erlend ríkisskuldabréf með 0% áhættuvog | 40.063 | 69.219 | -29.156 | -42,1% |
Hágæða lausafjáreignir | 157.081 | 222.718 | -65.637 | -29,5% |
Útlán og kröfur á fjármálafyrirtæki | 28.704 | 57.566 | -28.862 | -50,1% |
Heildarlausafjárforði | 185.785 | 280.284 | -94.499 | -33,7% |
Meginmælikvarði lausafjáráhættu til skamms tíma er lausafjárþekjuhlutfall (e. liquidity coverage ratio (LCR)) sem mælir hlutfall hágæða lausafjáreigna af nettó heildarútflæði á næstu 30 dögum miðað við tilteknar álagsaðstæður.
Heildarlausafjárþekja var 134% í lok árs 2022 en Seðlabankinn gerir kröfu um að hlutfallið sé að lágmarki 100%. Lausafjárþekja erlendra mynta var á sama tíma 351% en Seðlabankinn gerir kröfu um að það hlutfall sé að lágmarki 100%. Lausafjárþekja í íslenskum krónum var 99% í lok árs 2022 en Seðlabankinn gerir kröfu um að hlutfallið sé 40%.
Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.