Fjölbreytt samstarf og stuðningur

Við tökum þátt í margvíslegum verkefnum sem stuðla að uppbyggingu og framþróun í samfélaginu. Við styðjum fjölbreytt verkefni með fjárframlögum úr Samfélagssjóði og veitum námsstyrki. Við birtum víðtækt efni um efnahagsmál og leggjum okkar af mörkum til að efla fræðslu um fjármál.

Píanó

Sjóðir og styrkir

Við höfum stofnað sjóði til að veita brautargengi verkefnum sem við teljum líkleg til að efla íslenskt samfélag til framtíðar. Sérstakar dómnefndir, skipaðar fagfólki sem er að hluta utan bankans, fara yfir umsóknirnar og er umsóknarferlið gagnsætt og faglegt.

Samfélagssjóður og námsstyrkir

Samfélagssjóður Landsbankans gegnir lykilhlutverki í stuðningi okkar við samfélagið. Árið 2022 voru veittir námsstyrkir að upphæð sex milljónir króna og samfélagsstyrkir að upphæð fimmtán milljónir króna, alls 21 milljón króna. Frá árinu 2011 hafa yfir 430 verkefni fengið samfélagsstyrki úr sjóðnum sem nema samtals rúmlega 210 milljónum króna. Samfélagsstyrkirnir styðja verkefni á ýmsum sviðum, þar á meðal á sviði mannúðarmála, menningar og lista, menntunar, rannsókna og vísinda, forvarnar- og æskulýðsstarfs og á sviði umhverfismála og náttúruverndar.

Sjálfbærnisjóður

Sex áhugaverð verkefni hlutu styrk úr Sjálfbærnisjóði Landsbankans, alls að upphæð 10 milljónir króna. Þetta er í fyrsta sinn sem úthlutað er úr sjóðnum. Sjálfbærnisjóður Landsbankans tengist tveimur heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem við vinnum markvisst að hjá bankanum: Nr. 13., um aðgerðir í loftslagsmálum og nr. 9, um nýsköpun og uppbyggingu.

Menning og listir

Stuðningur við fjölbreytta menningarviðburði, hátíðir og tónlistarfólk sameinar samfélagsábyrgð bankans og viðleitni til að veita listum og menningu í landinu virkan stuðning.

Hinsegin dagar

Við styðjum réttindabaráttu hinsegin fólks en Landsbankinn hefur verið stoltur bakhjarl Hinsegin daga í Reykjavík frá upphafi. Í samstarfi við Hinsegin daga stöndum við einnig fyrir Gleðigöngupottinum, sem styður einstaklinga og smærri hópa við undirbúning og framkvæmd atriða í Gleðigöngunni.

Stofnun Árna Magnússonar

Við styrkjum verkefnið „Í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi“. Markmið verkefnisins er að skrá handrit í opinberum söfnum og einkaeigu í Kanada og Bandaríkjunum í gagnagrunn á vefsíðunni handrit.is. Slíkur gagnagrunnur tryggir aðgang fræðimanna að upplýsingum um íslensk handrit í Vesturheimi og eflir möguleika á samanburðarrannsóknum.

Iceland Airwaves

Við höfum um árabil verið stoltur bakhjarl Iceland Airwaves og hitað upp fyrir hátíðina með því að framleiða ný myndbönd með efnilegu tónlistarfólki. Að þessu sinni unnum við með Kusk, Superserious og tónlistarkonunni Unu Torfa. Myndböndin eru á Airwaves-vef Landsbankans.

Menningarnótt

Við höfum verið virkur þátttakandi í Menningarnótt frá upphafi og erum bakhjarl hátíðarinnar. Við höfum lagt áherslu á að fjárstuðningurinn renni beint til listafólks og -hópa sem skipuleggja viðburði á Menningarnótt. Með sérstökum Menningarnæturpotti, sem við stöndum að í samvinnu við Höfuðborgarstofu, er frumlegum og sérstökum hugmyndum veitt brautargengi. Alls fengu 22 verkefni styrki úr Menningarnæturpotti Landsbankans og Reykjavíkurborgar að þessu sinni.

Aldrei fór ég suður

Við erum einn af aðalbakhjörlum rokkhátíðarinnar Aldrei fór ég suður sem alla jafna er haldin á Ísafirði um hverja páska. Landsbankinn hefur stutt hátíðina allt frá árinu 2010 og með því viljum við leggja okkar af mörkum til að efla grasrótarstarf í íslenskri tónlist.

Nýsköpun og fræðsla

Við birtum fjölda fræðslugreina um fjármál einstaklinga á Umræðunni og fræðslu á vefnum okkar. Í þeim fjallar starfsfólk bankans um ýmislegt sem snýr að fjárhagnum og gefur góð ráð. Fræðslan er fyrir fólk á öllum aldri og á hinum ýmsu tímamótum í lífinu.

Á árinu 2022 birtust meðal annars fræðslugreinarnar „Þetta er gott að vita áður en þú kaupir hlutabréf“, „Fyrstu skrefin í verðbréfaviðskiptum“ og „Hvernig er hægt að ávaxta sparnað í verðbólgu“.

Fjármálafræðsla

Okkur er ljúft og skylt að taka þátt í fjármálafræðslu og eflingu fjármálalæsis. Við leggjum áherslu á fjármálafræðslu í framhaldsskólum með það mið fyrir augum að efla fjármálaskilning nemenda. Fræðsluheimsóknirnar standa öllum framhaldsskólum til boða og eru skipulagðar í samstarfi við fulltrúa þeirra.

Við tökum einnig virkan þátt í verkefninu Fjármálavit, sem er námsefni í fjármálafræðslu fyrir nemendur í eldri bekkjum grunnskóla. Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) og Landssamtök lífeyrissjóða (LL) standa að verkefninu í samstarfi við aðildarfélögin.

Gulleggið

Við erum styrktaraðili Gulleggsins sem er árleg frumkvöðlakeppni á vegum Klak. Meginmarkmið keppninnar er að skapa vettvang fyrir ungt athafnafólk til að öðlast þjálfun og reynslu í mótun nýrra viðskiptahugmynda og rekstri fyrirtækja. Samhliða keppninni er þátttakendum boðið upp á námskeið, ráðgjöf og aðstoð sérfræðinga við allt frá mótun hugmyndar til áætlanagerðar og þjálfunar í samskiptum við fjárfesta.

Forritarar framtíðarinnar

Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar er samfélagsverkefni sem hefur það hlutverk að efla og auka áhuga á forritun og hagnýtingu á tækni í skólum landsins. Sjóðurinn styrkir skóla til að senda kennara sína á námskeið í forritunar- og tæknikennslu, styður kaup á minni tækjum til slíkrar kennslu ásamt því að gefa notaðan tölvubúnað. Landsbankinn er einn af bakhjörlum sjóðsins.

Íþróttir og æskulýðsstarf

Við leggjum okkur fram við að styðja íþróttalíf og æskulýðsstarf um allt land. Útibú bankans gera það með beinum samstarfssamningum við íþróttafélög í sínu nærumhverfi, auk þess sem við tökum þátt í ýmis konar samstarfi á landsvísu. Í slíku samstarfi leggjum við áherslu á stuðning við barna- og unglingastarf.

Skólahreysti

Við erum aðalbakhjarl Skólahreysti og leggjum keppninni lið af krafti. Markmið Skólahreysti er að hvetja börn til þátttöku í alhliða íþróttaupplifun sem byggð er á grunnforsendum almennrar íþróttakennslu og þar sem keppendur vinna að mestu leyti með eigin líkama í þrautum. Keppnin var haldin í átjánda sinn í ár. Við fengum að sjá fjögur ný Íslandsmet og á endanum var það svo Flóaskóli sem stóð uppi sem sigurvegari eftir æsispennandi úrslitakeppni í Mýrinni.

Friðriksmótið í skák

Sterkasta hraðskákmót ársins, Friðriksmót Landsbankans – Íslandsmótið í hraðskák, var haldið í útibúinu við Austurstræti í desember. Þetta var í nítjánda sinn sem Landsbankinn og Skáksamband Íslands standa fyrir Friðriksmótinu sem haldið er til heiðurs Friðriki Ólafssyni, fyrsta stórmeistara Íslands.

Knattspyrnusamband Íslands

Við erum bakhjarl Knattspyrnusambands Íslands. Landsbankinn styrkir uppbyggingarstarf íslenskrar knattspyrnu um land allt, öll yngri landslið og A-landslið karla og kvenna. Í ár fögnuðum við góðum árangri kvennalandsliðsins, sem keppti á EM í sumar, með því að beina kastljósinu bæði að núverandi landsliðskonum og þeim sem ruddu brautina.

Undanfarin ár höfum við veitt Háttvísiverðlaun Landsbankans og KSÍ á mótum yngri flokka um allt land. Með veitingu verðlaunanna viljum við hvetja til háttvísi og heiðarlegrar framkomu hjá leikmönnum og annarra er að mótunum koma.

Samstarf við stofnanir 

Öflugt samstarf Landsbankans við atvinnulífið miðar að því að stuðla að aukinni verðmætasköpun, samkeppni og bættum lífskjörum.

Lánatryggingasjóðurinn Svanni

Við erum bakhjarl Svanna - lánatryggingasjóðs kvenna. Svanni veitir lán með lánatryggingum til fyrirtækja í meirihlutaeigu kvenna og er ætlað að efla atvinnulíf og hvetja til nýsköpunar. Svanni hefur verið í samstarfi við Landsbankann um lánafyrirgreiðslu um árabil.

Félagsstofnun stúdenta og Stúdentaráð HÍ

Farsælt samstarf hefur verið á milli okkar og Félagsstofnunar stúdenta (FS) annars vegar og Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) hins vegar. Saman höfum við staðið fyrir ýmsum verkefnum og viðburðum.

Háskólasjóður Eimskipafélagsins

Tólf doktorsnemar við Háskóla Íslands fengu styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands við úthlutun styrkja úr doktorssjóðum Háskóla Íslands á árinu 2022. Sjóðurinn er í umsjá Landsbankans. Hann var stofnaður til minningar um Vestur-Íslendinga og til að styðja við stúdenta í rannsóknartengdu námi við Háskóla Íslands.

Klasasamstarf í ferðaþjónustu

Við höfum verið aðili að klasasamstarfi í ferðaþjónustu frá upphafi samstarfsins árið 2012. Að klasasamstarfinu standa lykilfyrirtæki á sviði ferðaþjónustu, opinberir aðilar og fyrirtæki sem styðja við eða eiga samstarf við greinina. Helsta markmið þess er að auka samkeppnishæfni og verðmætasköpun innan ferðaþjónustunnar.

Fjártækniklasinn

Við erum einn af stofnaðilum Fjártækniklasans ásamt 62 fyrirtækjum, háskólum, samtökum og fleiri aðilum. Fjártækniklasanum er ætlað að efla nýsköpun í fjármálum og gera viðskipti af öllu tagi auðveldari og betri.

Bergið

Líkt og undanfarin ár veitti Landsbankinn styrki til góðs málefnis í nafni allra þeirra fyrirtækja sem hlutu viðurkenningu Creditinfo sem Framúrskarandi fyrirtæki. Að þessu sinni rann styrkurinn, fjórar milljónir króna, til Bergsins headspace.

Greining og útgáfa Hagfræðideildar

Hagfræðideild bankans greinir og fjallar um þróun efnahagsmála. Deildin heldur úti öflugri útgáfu með ýmsum hætti, m.a. á vef bankans og í hlaðvarpi, auk þess sem haldnir eru fundir, innan bankans sem utan. Deildin gegnir lykilhlutverki við að móta sýn bankans á þróun og horfur í efnahagslífinu, innanlands og sem utan.

Una Jónsdóttir

Hagfræðideild var sannarlega iðin við kolann árið 2022 og sendi frá sér rúmlega 250 útgáfur. Auk þess voru sérfræðingar deildarinnar áberandi í fjölmiðlum en viðfangsefni viðtala voru einna helst verðbólga, stýrivaxtahækkanir og þróunin á fasteignamarkaði.

Hlaðvarp um efnahagsmál

Í hlaðvarpi Landsbankans er fjallað um efnahagsmál á mannamáli. Viðfangsefnin eru sniðin að því sem er í brennidepli hverju sinni. Fasteignamarkaður, ferðaþjónusta, vextir, verðbólga, sjálfbærni, loftslagsmál og stríðið í Úkraínu voru allt umfjöllunarefni hlaðvarpsþátta á árinu 2022. Þá var farið ítarlega yfir þjóðhags- og verðbólguspár Hagfræðideildar í kjölfar útgáfu þeirra, bæði í maí og í október. Umfjölluninni er ætlað að vekja áhuga á efnahagsmálum og miðla upplýsingum um þau á aðgengilegan hátt.

Öflug efnahagsgreining og útgáfa

Hagsjá er vefrit með stuttum pistlum sem gefnir eru út eftir atvikum, oftast 1-3 sinnum í viku. Hagsjáin er birt á vefnum, send á fjölmennan póstlista og er iðulega til umfjöllunar í fjölmiðlum. Í pistlum Hagsjár er fjallað um stöðu efnahagsmála, ríkisfjármála, fasteignamarkaðinn, verðbólguhorfur, ferðaþjónustuna og fleira, rýnt í nýjustu hagtölur hverju sinni og gefnar út spár. Í Vikubyrjun, vefplaggi sem Hagfræðideildin gefur út hvern mánudag, er gerð grein fyrir stöðunni á mörkuðum og vikan sem leið gerð upp, auk þess sem farið er yfir það sem framundan er á sviði efnahagsmála, birtingu á hagtölum, uppgjörum fyrirtækja og fleira.

Þjóðhags- og verðbólguspá

Stærsti viðburður Hagfræðideildar á árinu var útgáfa og kynning á þjóðhags- og verðbólguspá fyrir 2022-2025. Spáin var kynnt á fjölmennum fundi í Hörpu, sem var einnig streymt, og hagspáin gefin út samhliða á vefnum. Að kynningu Hagfræðideildar lokinni tók við pallborð þar sem fjallað var um vinnumarkaðinn í aðdraganda kjarasamninga.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur