Ávarp bankastjóra

Á árinu gekk grunnrekstur bankans vel. Fjármálaþjónusta til fyrirtækja, einstaklinga og fagfjárfesta jókst að umfangi og tekjur jukust. Krefjandi aðstæður á hlutabréfamörkuðum höfðu áhrif á afkomu bankans á árinu og arðsemi bankans var undir áætlunum.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans

Í upphafi ársins 2022 ríkti bjartsýni, þrátt fyrir að enn væru takmarkanir vegna heimsfaraldursins, enda fullt tilefni fyrir okkur til að vera bjartsýn. Ferðamenn voru farnir að sjást aftur í miðbæ Reykjavíkur og hótel og veitingastaðir í höfuðborginni, sem urðu hvað verst úti vegna ferðatakmarkana, sáu fram á betri tíma. Sjávarútvegi gekk vel eftir glimrandi loðnuvertíð auk þess sem vel gekk að búa til verðmæti úr sjávarafla þrátt fyrir að eftirspurnin hefði breyst í faraldrinum. Áfram var kraftur í byggingarstarfsemi og vaxtastigið var þannig að æ fleiri gátu eða vildu kaupa fasteign. Einstaklingar komu almennt fjárhagslega vel út úr heimsfaraldrinum, lítið var um vanskil og sparnaður hafði stóraukist.

Við innrás Rússa í Úkraínu breyttist allt en stríðið og óvissan sem því fylgir hafa haft miklar efnahagslegar afleiðingar. Enn er ekki útséð um hvaða áhrif aukin verðbólga í Evrópu og Bandaríkjunum mun hafa á efnahag Íslands.

Landsbankinn er í góðri stöðu. Eiginfjárstaða bankans er sterk og bankinn getur tekist á við áskoranirnar. Framtíðin er líka björt því þrátt fyrir allt er staða fyrirtækja og heimila almennt góð.

Orkukrísan nær ekki til Íslands og þar af leiðandi eru bein fjárhagsleg áhrif vegna orkuverðshækkana takmörkuð. Á móti kemur að vextir hér á landi hafa hækkað umtalsvert og verðbólga, sem bæði er tilkomin vegna kostnaðarhækkana erlendis og innanlands, er farin að breiðast út. Efnahagshorfur eru óljósar og það er ljóst að það mun taka töluverðan tíma að ná jafnvægi aftur.

Stefnum á aukna útgáfu í erlendri mynt

Mikil umskipti urðu á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum á síðasta ári í framhaldi af innrás Rússlands í Úkraínu, orkukrísu í Evrópu, aukinni verðbólgu og verulega auknu aðhaldi í peningastefnu helstu iðnríkja heims. Ávöxtunarkrafa á nýja og útistandandi erlenda fjármögnun fjármálafyrirtækja hækkaði því umtalsvert á árinu og seljanleiki slíkra skuldabréfa varð minni en verið hafði um langt skeið. Það átti ekki síst við um hækkandi vaxtaálag á skuldabréfaútgáfur banka frá smærri ríkjum Evrópu, þ.m.t. talið vaxtaálag á skuldabréf íslenskra banka. 

Að jafnaði þarf bankinn að afla sér fjármögnunar að andvirði um 300 milljónir evra á ári á erlendum mörkuðum og með skuldabréfaútgáfu innanlands. Við gáfum mikið út á árinu 2021 og vorum vel fjármögnuð á árinu 2022. Því höfum við getað haldið að okkur höndum á meðan mestu sveiflurnar hafa gengið yfir erlenda fjármagnsmarkaði. Við höfum nýtt tímann vel og undirbúið útgáfur sértryggðra skuldabréfa í erlendri mynt. Við stefnum að því að gefa út slík skuldabréf á fyrsta fjórðungi ársins og mæta þannig að mestu þörf fyrir endurfjármögnun bankans á árinu, en aðstæður á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hafa batnað umtalsvert frá því sem var á síðari hluta síðasta árs.

Efstur banka í Ánægjuvoginni fjórða árið í röð

Viðskiptavinum hélt áfram að fjölga og markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði hefur aldrei mælst hærri. Það er ánægjulegt að útlán til fyrirtækja jukust talsvert og það var áfram ágæt aukning í íbúðalánum, þó hægt hafi á eftirspurn síðari hluta ársins. Innlán jukust einnig töluvert.

Við leggjum okkur öll fram við að efla ánægju viðskiptavina og einfalda þeim lífið með framúrskarandi tæknilausnum og mannlegri bankaþjónustu. Það var því risastór viðurkenning að Landsbankinn varð efstur banka í Íslensku ánægjuvoginni fjórða árið í röð.

Það er vert að rifja upp nokkra af sigrum ársins sem einfalda viðskiptavinum lífið. Fyrst má nefna að sparað í appi sló algjörlega í gegn. Sparað í appi er algjörlega stafrænn innlánsreikningur sem við kynntum til sögunnar í mars 2021. Lausnin er einföld og býður upp á þann skemmtilega möguleika að spara saman og setja sér markmið. Árið 2022 byrjuðum við að bjóða upp á bestu kjörin okkar á óbundinn sparnað í appinu. Sparnaður í appi 35-faldaðist á milli ára sem sýnir að appið er bæði mikilvæg og áhrifamikil söluleið fyrir nýjar vörur og þjónustu og að viðskiptavinir eru fljótir að nýta sér spennandi nýjungar. Aðrir góðir sigrar voru t.d. þegar við urðum fyrst til að bjóða rafrænar þinglýsingar við endurfjármögnun íbúðalána. Við settum líka Aukakrónur í símann og bjóðum nú mun öruggari auðkenningu við innskráningu og staðfestingu á greiðslum í netbanka og appi. Við finnum að viðskiptavinir eru mjög ánægðir með appið og notkun þess hefur aukist mikið, einkum hjá fyrirtækjum, enda er allt einfaldara og þægilegra í Landsbankappinu.

Allt á einum stað

Á árinu bættust um 6.000 einstaklingar í hóp ánægðra viðskiptavina og markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði mældist um áramót 40,1%, hærri en nokkru sinni fyrr. Fyrirtækjum og félögum í viðskiptum fjölgaði á sama tíma um hátt í 2.000.

Mikil ánægja hefur verið með áherslu okkar á að einfalda lausnir og þjónustu fyrir fyrirtæki með öflugum fyrirtækjabanka og appi sem mætir flestum daglegum þörfum. Það eru enn fleiri nýjungar fyrir fyrirtæki í bígerð. Ein þeirra er færsluhirðing Landsbankans sem er að fara í loftið þessa dagana. Færsluhirðing hefur verið í prófunum undanfarið sem hafa gengið mjög vel. Lausnin er bæði afar tæknileg en um leið einföld í notkun og býður t.d. upp á beinar tengingar við bókhaldskerfi söluaðila.

Við munum bæði bjóða upp færsluhirðingu í posum og á netinu og kerfið býður upp á tengingar við helstu netverslunarkerfi. Okkar fólk sem hefur kynnt lausnina finnur fyrir miklum meðbyr og það er greinilegt að viðskiptavinir vilja hafa allt á einum stað – hjá Landsbankanum.

Aukin útlán til fyrirtækja

Landsbankinn er umsvifamesti bankinn í útlánum til fyrirtækja með um 40% hlutdeild í fyrirtækjalánum. Það er ánægjulegt að útlán til fyrirtækja í öllum atvinnugreinum jukust á árinu. Alls nam aukningin 92 milljörðum króna, en um 80 milljörðum króna ef litið er framhjá gengisáhrifum sem jafngildir um 10% útlánavexti. Við lánuðum mikið til byggingarverkefna á árinu þótt heildarútlán til greinarinnar hafi ekki hækkað að sama skapi þar sem sala eigna hefur gengið vel og uppgreiðslur því hraðar. Okkur telst til að á síðasta ári höfum við fjármagnað um 4.300 íbúðir í 142 byggingarverkefnum. Við höfum stutt vel við íbúðauppbyggingu en undanfarið höfum við að jafnaði lánað um 36 milljarða króna til byggingarverkefna á hverju ári.

Við náðum góðum árangri á öðrum sviðum fyrirtækjaþjónustu, ekki síst við gjaldeyrismiðlun og lausafjárstýringu. Þá lauk Fyrirtækjaráðgjöf bankans mörgum vel heppnuðum verkefnum. Það er líka afrakstur margra ára markvissrar vinnu að þrátt fyrir erfitt ár á mörkuðum, var áfram vöxtur í grunntekjum Landsbréfa. Félagið hefur náð góðum árangri, reksturinn gengið vel og Landsbréf greiddu 3 milljarða króna í arð til bankans á árinu.

Þróttur í fyrirtækjaþjónustu, vel heppnuð uppbygging sjóða og aukin umsvif í eignastýringu eiga stóran þátt í því að þjónustutekjur bankans jukust um 12% á árinu.

Þátttakandi í samfélaginu

Landsbankinn hefur undanfarin ár fjárfest stöðugt í tæknilegum innviðum sem birtist viðskiptavinum helst í fjölda nýjunga, öruggara umhverfi og stöðugleika. Við leggjum sem fyrr mikla áherslu á öryggismál. Því miður hefur mikið borið á fjársvikatilraunum á netinu og í gegnum síma undanfarið. Umræða og fræðsla er besta vörnin og því hefur starfsfólk bankans farið víða með kynningar og fræðslu um netöryggi, bæði til einstaklinga og fyrirtækja, nú síðast fyrir eldri borgara á Akureyri við góðar undirtektir.

Jákvæð áhrif bankans á íslenskt samfélag eru mikil. Við erum einn umsvifasmesti styrktaraðili landsins en í fyrra styrktum við um 250 einstaklinga, félög og verkefni með ýmsum hætti.

Árlega birtum við mikinn fjölda af greiningum um efnahagsmál og ýmsa fjármálafræðslu. Vikubyrjun Hagfræðideildar er ómissandi á mánudögum og Hagsjárnar eru nauðsynlegar fyrir öll sem vilja taka þátt í umræðu um efnahagsmál. Það munar líka um arð- og skattgreiðslur bankans, en á árinu 2022 greiddi bankinn 20,5 milljarða króna í arð og 14,1 milljarð króna í skatta, rúma 34,6 milljarða króna samtals.

Leiðandi í sjálfbærnivinnu

Við erum stærsti viðskiptabanki landsins og útlán okkar ná til einstaklinga og fyrirtækja um allt land og í öllum atvinnugreinum. Bankinn var fyrstur íslenskra fjármálafyrirtækja til að mæla kolefnislosun frá lánasafni sínu, en lánasafnið var valið sem byrjunarpunktur því áhrifin eru mest þar. Við trúum því að regluleg mæling á loftslagsáhrifum þeirra þátta sem eru mikilvægastir í starfseminni sé lykillinn að markmiðasetningu og mælingum á árangri við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Til að setja áherslu bankans á óbeina losun í samhengi þá er kolefnisspor af eigin starfsemi innan við prósentustig af því sem við áætlum að sé heildalosun af okkar rekstri. Það þarf að setja mælingar á losunartölum í samhengi eins og allar aðrar mælingar, áður en dregnar eru víðtækar ályktanir eða ákvarðanir teknar. Ísland er aðili að Parísarsamkomulaginu auk þess sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér markmið um kolefnishlutleysi árið 2040 og það er ljóst að öll fyrirtæki á Íslandi eru þátttakendur í því stóra verkefni.

Losunartölur útlána áranna 2020 og 2021 eru nokkuð undir losunartölum bankans fyrir árið 2019 en ætla má að samdrátturinn sé að megninu tilkominn vegna áhrifa þess samdráttar sem varð í efnahagslífinu vegna Covid-19-faraldursins sem skók heimsbyggðina.

Landsbankinn ætlar að halda áfram að vera leiðandi í sjálfbærnivinnu, ekki bara á Íslandi heldur einnig alþjóðlega.

Aukin umsvif en færri handtök

Nú eru tíu ár liðin frá því Landsbankinn greiddi í fyrsta skipti arð til nýrra eigenda. Óhætt er að segja að á þessum árum hafi rekstur bankans tekið stakkaskiptum og umsvifin aukist mikið. Sem dæmi má nefna að innlán og útlán hafa tvöfaldast, einstaklingum og fyrirtækjum í viðskiptum fjölgað mikið og markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði aukist úr 32% í yfir 40%. Góður rekstur er grundvöllur þess að bankinn mun frá 2013-2023 greiða rúmlega 175 milljarða króna í arð, verði tillaga bankaráðs um 8,5 milljarða króna arðgreiðslu á þessu ári samþykkt. Á sama tíma hefur eigið fé bankans aukist um hátt í 40 milljarða króna. Tækninýjungar og hagræðing í rekstri veldur því að þrátt fyrir stóraukin umsvif, betri þjónustu og fleiri viðskiptavini er starfsfólk nú um þriðjungi færra en árið 2013. Samsetning starfsfólk hefur breyst, enda sjá viðskiptavinir í auknum mæli sjálfir um að leysa ýmis erindi, í netbankanum eða appinu, sem áður kröfðust aðkomu starfsfólks. Hlutfallslega fleiri starfa nú t.d. við ýmiskonar hugbúnaðarþróun og viðhald tækniinnviða en færri í afgreiðslustörfum. Áfram er mikil áhersla á ráðgjöf til viðskiptavina, hvort sem er í útibúum eða þjónustuveri.

Kraftur og áræðni

Starfsfólk Landsbankans á hrós skilið fyrir dugnað og áræðni og fyrir að aðlagast hratt breyttum aðstæðum á fjármálamarkaði. Það hefur verið gott að fá starfsfólk bankans aftur í hús eftir heimsfaraldurinn en jafnframt hefur ný fjarvinnustefna með skýrum viðmiðum og tækifærum til að vinna frá fjarlægum stöðum mælst mjög vel fyrir. Einnig vildum við koma til móts við yngra fólk með því að bæta fæðingarorlofsgreiðslur, sem eru nú orðnar 80% af launum. Við viljum að starfsfólk bankans sé stolt af Landsbankanum og mæli með bankanum sem vinnustað. Það er eitt af lykilmarkmiðum bankans.

Það er mikill kraftur í starfsfólki bankans og við erum bjartsýn. Öflug þjónusta við fyrirtæki og fjárfesta ásamt hæstu markaðshlutdeild sem við höfum séð á einstaklingsmarkaði skapa tækifæri til frekari sóknar. Við mætum samkeppninni með góðu aðgengi að reyndu starfsfólki, frábæru appi og sanngjörnum kjörum. Það er Landsbanki nýrra tíma.

Ég þakka starfsfólki bankans og bankaráði kærlega fyrir gott og árangursríkt samstarf á árinu.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur