Áhættustjórnun

Áhætta er samofin allri starfsemi Landsbankans og öflug og traust áhættustjórnun er því lykilþáttur í rekstri bankans. Áhættustjórnun felur í sér greiningu, mat, upplýsingagjöf og stýringu á öllum áhættuþáttum.

Fjallabak

Síðastliðið ár einkenndist af krefjandi aðstæðum á verðbréfa- og fjármagnsmörkuðum ásamt þrálátri verðbólgu og vaxtahækkunum hér á landi sem erlendis. Þrátt fyrir ríkjandi óvissu í ytra umhverfi sýna helstu áhættumælikvarðar að staða bankans er afar traust sem er undirstaða fyrir heilbrigðan rekstur og góða arðsemi.

Áhættumælingar og mat bankans á mikilvægustu áhættuþáttum er almennt jákvætt og horfur stöðugar hvað varðar flesta áhættuþætti. Vanskil í útlánasafni bankans eru áfram í lágmarki og eiginfjárstaðan er sterk. Áhættumælikvarðar þróuðust flestir á jákvæðan hátt á síðasta ári og voru almennt innan áhættuvilja í árslok.

Sem fyrr er útlánaáhætta umfangsmesta áhætta bankans. Bókfært virði útlána til viðskiptavina jókst um 157 milljarða króna á liðnu ári og var vöxtur bæði í útlánum til fyrirtækja og einstaklinga.

Á árinu 2022 var færð tæplega 2,5 milljarða króna tekjufærsla í rekstrarreikning vegna virðisrýrnunar (2021: 7 milljarða króna tekjufærsla). Meginástæður tekjufærslunnar á árinu eru bakfærsla safnframlags vegna útlána til ferðaþjónustu og annarra fyrirtækja sem voru í greiðsluhléi vegna heimsfaraldursins og minni vanefndir útlána en gert var ráð fyrir.

Næst umfangsmesta áhættan í rekstri bankans er rekstraráhætta, en þar undir falla fjölmargir áhættuþættir. Netárásir á viðskiptavini í formi vefveiða eru áfram vaxandi ógn hér á landi, líkt og um allan heim, og leggur bankinn áfram mikla áherslu á að verja viðskiptavini. Auk áhættu vegna netárása bættist á árinu við önnur ógn vegna stríðsins í Úkraínu. Sú áhætta beinist ekki síst að innviðum landsins og netsambandi við útlönd. Bankinn hefur uppfyllt ISO 27001 vottun um upplýsingaöryggi í 15 ár og er vottunin ásamt fræðslu um upplýsingaöryggi til starfsfólks og viðskiptavina ein af meginstoðum varna bankans þegar kemur að netöryggi.

Í árslok 2022 var eiginfjárhlutfall bankans 24,7% sem er vel yfir gildandi eiginfjárkröfum (20,7%). Lausafjárstaða bankans í heild, í erlendum myntum og í einstökum myntum er vel umfram lögbundin mörk og innri áhættumörkum bankans. Hlutfall heildarlausafjárþekju var 134% í árslok, 99% í íslenskum krónum og 351% í erlendum myntum. Heildarmarkaðsáhætta hefur vaxið á árinu í tengslum við aukna óvissu og sveiflur á öllum mörkuðum en er þrátt fyrir það vel innan áhættuvilja. 

Lagt er mat á áhættuþætti í rekstri bankans með ýmsum mælikvörðum, eftir umfangi þeirra og eðli, og mælikvarðarnir mynda grunn fyrir áhættumörk, greiningu áhættuþátta, upplýsingagjöf og stjórnun áhættu. Sameiginleg mæling allra áhættuþátta er innra mat bankans á eiginfjárþörf (e. economic capital) sem ætlað er að mæta óvæntu tapi í rekstri bankans. 

Heildareiginfjárþörf samkvæmt innra mati bankans var 103 milljarðar króna í árslok 2022 og lækkaði um 1 milljarð króna á milli ára. Áhættugrunnur bankans hækkaði í takt við útlánavöxt á árinu og var hlutfall eiginfjárþarfar af áhættugrunni 8,6% í lok ársins (2021: 9,1%).

Áhættustefna Landsbankans

Landsbankinn hefur sett sér áhættustefnu með það að markmiði að setja umgjörð um áhættustjórnun og áhættuvilja bankans, sem er undirstaða langtímaarðsemi og stöðugleika. Stefna bankans tekur líka til innleiðingar á áhættumenningu, áhættureglna og stjórnskipulags sem skilgreinir ábyrgð og eftirfylgni við áhættustjórnun.

Allir mikilvægustu áhættuþættir í starfsemi bankans eru skilgreindir, metnir og mældir, hvort sem þeir eru fjárhagslegir eða ófjárhagslegir. Mikilvægustu áhættuþættir bankans eru útlánaáhætta, markaðsáhætta, lausafjáráhætta, samþjöppunaráhætta, rekstraráhætta, viðskiptaáhætta, lagaleg áhætta, orðsporsáhætta, háttsemisáhætta, hlítingaráhætta, upplýsingaöryggisáhætta, gagnaáhætta, líkanaáhætta og loftslagsáhætta.

Innra stjórnskipulag Landsbankans lýsir ákvörðunarferli um helstu áhættuþætti, heimildum til ákvarðana- og áhættutöku, eftirfylgni og eftirliti bankaráðs, bankastjóra og einstakra nefnda bankans.

Bankaráð hefur samþykkt áhættuvilja sem endurspeglar áhættustefnu bankans og er stjórntæki til að stýra áhættutöku auk þess að skilgreina markmið um heildaráhættu í starfsemi bankans. Áhættuviljinn er endurskoðaður að lágmarki árlega.

Virkt innra eftirlit

Virkt innra eftirlit er einn af hornsteinum öflugrar áhættustjórnunar og er ætlað að stuðla að því að bankinn starfi í samræmi við áhættustefnu og áhættuvilja.

Innra eftirlit er ferli sem er mótað af stjórnendum og starfsfólki bankans og felur í sér allar þær aðgerðir sem gripið er til með það að markmiði að styðja við, stjórna, takmarka eða vakta tiltekna starfsemi og styðja þannig bankann í að ná settum markmiðum.

Þá leggur Landsbankinn áherslu á góð og uppbyggjandi samskipti við eftirlitsaðila og rétta upplýsingagjöf til þeirra.

Áhættumælikvarðar í áhættuvilja Landsbankans

Megináhættumælikvarðar bankans koma fram hér að neðan en auk þeirra leggur bankinn mat á og mælir ýmsa aðra áhættuþætti sem styðja við áhættustjórnun og ákvörðunartöku.

Áhættuþáttur    Mæling
Útlánaáhætta Vænt tap
Meðallíkur á vanefndum
Samþjöppunaráhætta Stærsta áhættuskuldbinding (hlutfall af eigin fé þáttar 1)
Stórar áhættuskuldbindingar alls (hlutfall af eigin fé þáttar 1)
Markaðsáhætta Heildarmarkaðsáhætta
Áhættuþáttur Mæling
Lausafjár- og fjármögnunaráhætta Lausafjárþekja í krónum
Lausafjárþekja í erlendum myntum
Lausafjárþekja alls
Fjármögnunarþekja alls
Eiginfjáráhætta Eiginfjárhlutfall alls
Rekstraráhætta Raunbreyting áhættugrunns
Arðsemi Arðsemi eigin fjár eftir skatta

Ítarlegri upplýsingar í áhættuskýrslu

Landsbankinn gefur út áhættuskýrslu þar sem gerð er ítarleg grein fyrir öllum áhættuþáttum bankans og þeim aðferðum sem beitt er við mat á áhættu.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur