Landsbanki nýrra tíma

Yfirskrift stefnu Landsbankans er „Landsbanki nýrra tíma“ og er heiti hennar ætlað að endurspegla sýn bankans á stöðuga framþróun og mannlega bankaþjónustu í síbreytilegum heimi. Innleiðing stefnunnar hófst í ársbyrjun 2021. Stefnan var uppfærð í lok árs 2022 í ljósi þess að við höfðum þegar náð ýmsum markmiðum á undan áætlun.

Fjölskylda við eldhúsborð

Gildi bankans er traust og er það lykilþáttur í allri starfseminni, hvort sem horft er til samskipta við viðskiptavini, samstarfsfólks eða átt er við rekstur bankans og starfsemi. Viðskiptavinir geta treyst því að við séum til staðar og að rekstur bankans sé í öruggum höndum. Birtingarmynd þessarar áherslu kemur skýrt fram m.a. í því að Landsbankinn er fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum, hugsar til framtíðar, er í stöðugri framför og leggur mikla áherslu á sjálfbærni. Fjárhagsstaðan er sterk og góð eiginfjárstaða uppfyllir allar kröfur eftirlitsaðila. Afkoman hefur verið jöfn og arðgreiðslur hafa verið reglulegar frá árinu 2013 en á árunum 2013-2022 greiddi bankinn alls um 167 milljarða króna í arð til eigenda. Lánshæfi bankans er BBB og er stöðugt.

Við leggjum ríka áhersla á að vera jákvætt hreyfiafl í samfélögum um allt land og stuðla að farsælli framtíð lands og þjóðar. Bankinn bæði ástundar og hvetur til sjálfbærni. Landsbankinn er meðal fremstu banka í Evrópu þegar kemur að mati á UFS-þáttum (umhverfismálum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum) og hefur innleitt sjálfbærni í kjarnastarfsemi sína. Lánað er til verkefna í samræmi við sjálfbæran fjármálaramma, boðið er upp á sjálfbæran sparnað, búið er að kolefnisjafna starfsemina og mæla kolefnisspor lánasafnsins. Nánar er fjallað um sjálfbærni og sjálfbærnistefnu bankans í öðrum kafla árs- og sjálfbærniskýrslunnar.

Gildi bankans: Traust

Landsbankinn er bakhjarl fjölda verkefna í samfélaginu og veitir styrki fyrir nær hundrað milljónir króna ár hvert. Starfsfólk bankans tekur virkan þátt í samfélagsumræðunni, leggur faglegar greiningar á vogarskálar efnahagsumræðunnar, veitir margskonar fræðslu um fjármál og birti m.a. hátt í 60 fræðslugreinar og hlaðvarpsþætti sl. ár, auk þess að leggja mikla áherslu á fræðslu og upplýsingagjöf um netöryggi, með þátttöku í umræðu í fjölmiðlum og á fundum um efnið.

Stoðirnar þrjár

Stefnan er studd af þremur stoðum, en þær tengjast mismunandi þáttum sem snúa að viðskiptavinum, rekstri bankans og starfsfólki.

Stefnustoð 1: Ánægðir viðskiptavinir
Stefnustoð 2: Stöðug framför
Stefnustoð 3: Við elskum árangur

Ánægðir viðskiptavinir. Fyrsta stoðin byggir á því að einfalda viðskiptavinum lífið og fangar jafnframt mannlega þáttinn í bankaþjónustu Landsbankans. Við finnum stöðugt leið til að gera enn betur og leysa áskoranir á farsælan hátt. Í því felst frumkvæði og það hugarfar sem Landsbanki nýrra tíma byggir á.

Afraksturinn hefur ekki látið á sér standa enda mælist Landsbankinn sterkasta vörumerkið á bankamarkaði og viðskiptavinir bankans þeir ánægðustu. Markaðshlutdeild okkar er gríðarlega góð og hækkar á milli ára, bæði á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði. Vaxandi og öflug fyrirtækjaráðgjöf ásamt miðlun styrkir enn stöðu bankans sem helsta viðskiptabanka fyrirtækja. Bankinn er auk þess með vaxandi umsvif í eignastýringu, bæði til sérhæfðra fjárfesta og alls almennings. Þá er Landsbankinn stærsti lánveitandinn á fyrirtækjamarkaði.

Stöðug framför. Önnur stoðin snýr að stöðugum og traustum rekstri. Ásamt góðum efnahag eru þessir þættir forsenda þess að skapa rými til framfara þar sem starfsemin verður stöðugt snjallari.

Bankinn byggir á traustum tæknilegum innviðum. Mikil áhersla er lögð á öfluga uppbyggingu tæknimála og framþróun stafrænna lausna þar sem áreiðanleiki, öryggi og notendaupplifun eru í fyrirrúmi. Við tökum einnig virkan þátt í þróun fjármálakerfisins enda fellur Landsbankinn undir kerfislega mikilvæga starfsemi fyrir fjármálainnviði Íslands.

Við elskum árangur. Þriðja stoðin fjallar um starfsfólk og að vinnustaðurinn skapi umhverfi til framúrskarandi árangurs. Við elskum árangur vísar í persónulegan árangur en líka sameiginlegan árangur sem jákvæður og lausnamiðaður hópur starfsfólks þvert á bankann nær og birtist í framúrskarandi þjónustu. Menningin er árangursdrifin með hagsmuni viðskiptavina, samfélags, samstarfsfólks og eigenda í huga. Bankinn hefur innleitt viðmið um fjarvinnu og sveigjanleika, tryggt starfsfólki 80% launa í fæðingarorlofi og mun á árinu 2023 flytja í glæsilegar nýjar höfuðstöðvar við Austurbakka þar sem vinnuumhverfið mun styðja við verkefnamiðaða vinnu. Landsbankinn er sannarlega vinnustaður framtíðarinnar.

Skýr markmið og góður gangur

Okkur hefur gengið betur en áætlanir gerðu ráð fyrir við að ná þeim lykilmarkmiðum sem við settum okkur þegar við byrjuðum að vinna eftir nýju stefnunni í ársbyrjun 2021. Í sumum tilvikum höfum við þegar náð markmiðum sem við gerðum ráð fyrir að tækju lengri tíma.

Landsbankinn er kerfislega sterkur með öflugan mannauð. Þessi góði grunnur skapar tækifæri til að sækja fram með snjöllum og öruggum lausnum sem einfalda viðskiptavinum lífið. Lausnir og þjónusta bankans byggja á frábæru starfsfólki sem elskar árangur og er tilbúið til að leggja mikið á sig til að finna stöðugt nýjar leiðir til að takast á við áskoranir og örar breytingar.

Þetta er Landsbanki nýrra tíma.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur