Ávarp formanns bankaráðs

Árangur Landsbankans árið 2022 var góður og bankinn náði flestum markmiðum sem hann setti sér. Skýr stefna og markviss vinna hefur meðal annars leitt til þess að einstaklingum og fyrirtækjum í viðskiptum hefur fjölgað mikið og markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði hefur aldrei verið hærri. Það var líka mikil viðurkenning þegar bankinn mældist efstur í Íslensku ánægjuvoginni meðal viðskiptavina á bankamarkaði fjórða árið í röð.

Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs

Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs

Hagnaður bankans á árinu 2022 nam 17,0 milljörðum króna eftir skatta og arðsemi eigin fjár var 6,3%. Grunnreksturinn gekk vel en lækkun á gangvirði óskráðra eignarhluta bankans í Eyri Invest hf. sem nam 10,5 milljörðum króna á árinu veldur því að arðsemin er ekki í takt við okkar markmið.

Á árinu jukust hreinar vaxtatekjur um 19%. Þá jukust hreinar þjónustutekjur um 12% með auknum umsvifum bankans á nánast öllum sviðum. Aukin umsvif, góður árangur í fyrirtækjaþjónustu og fyrirtækjaráðgjöf, ásamt traustri eignastýringu eiga stærstan þátt í þessu góða gengi.

Núverandi arðgreiðslustefna bankans er að greiða um 50% af hagnaði fyrra árs í reglulegar arðgreiðslur til hluthafa. Í samræmi við það markmið hyggst bankaráð leggja fram tillögu á aðalfundi 2023 um að bankinn greiði 8,5 milljarða króna í arð vegna rekstrarársins 2022. Verði tillagan samþykkt munu arðgreiðslur bankans á árunum 2013-2023 samtals nema 175,2 milljörðum króna.

Staða bankans er afar sterk á alla mælikvarða. Á árinu 2021 réðumst við í stórar skuldabréfaútgáfur erlendis sem gaf svigrúm til að halda að okkur höndum þegar fjármagnskjör og staðan á erlendum fjármagnsmörkuðum var sem erfiðust á síðasta ári. Nú hafa aðstæður á erlendum fjármagnsmörkuðum batnað og stefnum við að því að auka aftur útgáfu okkar í erlendri mynt.

Þjónusta eins og viðskiptavinir vilja

Landsbankinn er í fremstu röð þegar kemur að uppbyggingu tæknilegra innviða og  stafrænum lausnum fyrir okkar viðskiptavini. Það er verulegt ánægjuefni að fyrirtæki nýta sér Landsbankaappið í stórauknum mæli.

En þótt bankaþjónusta hafi breyst og sífellt stærri hluti af þjónustunni fari fram á netinu, er þörfin fyrir persónulega ráðgjöf og þjónustu enn til staðar. Sérstaða Landsbankans felst meðal annars í því að við erum þar sem viðskiptavinir okkar eru.

Okkar stefna hefur því verið að halda áfram að reka útibú og afgreiðslur í samfélögum um allt land, þar sem forsendur eru fyrir slíkum rekstri. Við erum hluti af samfélaginu og við sýnum það í verki. Það hefur sýnt sig að fólk og fyrirtæki kunna vel að meta þessa stefnu. Markaðshlutdeild okkar á einstaklingsmarkaði um allt land hefur farið hækkandi. Hún mælist nú yfir 40% á landsvísu og hún er enn hærri á landsbyggðinni eða tæplega 46%.

Tækninýjungar hafa ekki aðeins breytt því hvernig viðskiptavinir sinna bankaerindum, heldur hafa þær líka leitt til breytinga á hvernig við veitum persónulega þjónustu og ráðgjöf. Tækni til að halda fjarfundi hefur til dæmis fleygt fram og Landsbankinn nýtir þessa tækni til að starfsfólk um allt land geti veitt viðskipavinum hvar sem er á landinu þjónustu eftir þeim leiðum sem þeim hentar best. Þannig nýtum við þá miklu sérfræðiþekkingu sem býr í starfsfólki bankans, störfin í útibúunum úti á landi verða fjölbreyttari, biðin eftir ráðgjöf og þjónustu verður styttri og þjónustan betri. Starfsemin í útibúunum og afgreiðslunum um allt land hefur því breyst í takt við nýja tíma og tækni. Landsbankinn á Akureyri er ágætt dæmi um nútímalega starfsemi bankans á landsbyggðinni. Þar starfa nú rúmlega 30 manns, um helmingur við þjónustu í útibúinu og um helmingur í þjónustuveri sem þjónar viðskiptavinum um allt land. Útibúið okkar á Akureyri er stærsta bankaútibúið utan höfuðborgarsvæðisins og starfsemin þar er öflug, eins og meðal annars sést á hárri markaðshlutdeild bankans á svæðinu. Líkt og á við víða í starfsemi bankans hafði húsakosturinn á Akureyri lengi verið óþarflega stór. Við ákváðum því á árinu að bjóða húsið til sölu og nú í haust var gengið frá samningum við fjárfestingarfélagið Kaldbak um kaup á húsinu. Áður höfðum við selt Landsbankahúsin á Ísafirði og Selfossi og er því aðeins eitt af húsunum sem byggð eru eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar enn í eigu bankans, það er að segja Austurstræti 11. Húsin eru öll nátengd sögu bankans og því óneitanlega eftirsjá sem fylgir flutningnum í ný hús. Staðreyndin er samt sú að þegar við flytjum út úr þessum gömlu og virðulegu bankahúsum fá þau nýjan tilgang og nýtt líf. Sú hefur þegar orðið raunin á Akureyri, Ísafirði og Selfossi og ég treysti því að sú verði einnig raunin í Reykjavík.

100 ár á milli flutninga

Á næsta ári verða 100 ár liðin frá því bankinn flutti starfsemi sína aftur í Austurstræti 11 eftir að fyrsta Landsbankahúsið brann í miðbæjarbrunanum 1915. Magnús Sigurðsson bankastjóri sagði þegar endurreist hús var opnað í febrúar 1924 að bankahúsið væri „fegursta byggingin, sem vjer Íslendingar höfum enn þá bygt, og mun ætíð verða til sóma þeim mönnum, sem unnu að henni“. Ég tek heilshugar undir þessi orð. Austurstræti 11 er sannkölluð perla og gott dæmi um hversu mikilvægt er að vandað sé til verka, bæði við hönnun og framkvæmdir, ekki síst þegar hús eru reist á áberandi og mikilvægum stöðum í borgum og bæjum.

Þegar Austurstræti 11 var endurreist fyrir 100 árum var byggt til framtíðar. Það á einnig við um nýja Landsbankahúsið við Austurbakka. Nýja Landsbankahúsið er fallegt, það sómir sér vel á þessum mikilvæga stað í miðborginni og þegar framkvæmdum lýkur seinna á þessu ári verður það lokahnykkurinn á hinni miklu uppbyggingu sem hefur átt sér stað á svæðinu.

Nýja húsið mun styrkja hafnarsvæðið og mannlífið þar með sínum opnu svæðum og lifandi starfsemi. Það mun einnig styrkja starfsemi bankans því húsið býður upp á miklu betra vinnuumhverfi en núverandi húsakynni í Kvosinni og Borgartúni sem eru bæði óhentug og óhagkvæm.

Framkvæmdir við húsið hafa gengið vel og stefnt er á að hefja flutninga þangað núna á fyrsta ársfjórðungi. Frá upphafi var gert ráð fyrir að bankinn myndi nýta um 60% af húsinu, eða um 10.000 fermetra, og aðrir hlutar hússins yrðu seldir eða leigðir undir aðra starfsemi. Í haust var samið við ríkið um kaup á svokölluðu Norðurhúsi Austurbakka en þangað mun utanríkisráðuneytið flytja auk þess sem áformað er að Listasafn Íslands fái hluta hússins undir starfsemi sína. Það er mikið hagræði og einföldun fólgin í því að einn stór og traustur kaupandi hafi eignast þá hluta hússins sem við nýtum ekki. Starfsemi ríkisins fellur vel að starfsemi bankans auk þess sem möguleiki er á ýmsum samrekstri. Niðurstaðan er því hagfelld fyrir báða aðila og ánægjulegt til þess að hugsa að í húsinu verði kröftug starfsemi frá fyrsta degi.

Landsbankinn er stærsti viðskiptabanki landsins og býður upp á fjölbreytta fjármálaþjónustu. Fjármálaþjónusta krefst sérfræðiþekkingar og fjárfestingar í fólki og tækni. Því fylgir einnig töluverður kostnaður að tryggja öryggi, enda stafar sífellt meiri ógn af netglæpum. Kostnaður við að uppfylla ítrustu kröfur sem gerðar eru til fjármálafyrirtækja, vegna eftirlits og annars er sömuleiðis töluverður. Bankinn er vel rekinn, eins og sést m.a. á því að rekstrarkostnaður hefur haldist stöðugur í mörg ár. Við leggjum áherslu á að veita hagstæð kjör, bæði í útlánum og innlánum og þjónustugjöldum er einnig haldið í skefjum. Um leið þarf bankinn að skila ásættanlegum arði á hið mikla eigið fé sem í honum er bundið.

Mikilvægt að ná tökum á verðbólgunni

Undanfarið hafa sviptingar einkennt íslenskt efnahagslíf og raunar allt heimshagkerfið. Ekki þarf að fjölyrða um áhrif heimsfaraldursins. Þegar honum var um það bil að slota og útlit var fyrir að hagkerfi heimsins myndu færast í eðlilegt horf réðust Rússar inn í Úkraínu. Stríðið og afleiðingar þess fyrir Úkraínumenn eru hörmulegar en áhrifa stríðsins, beinna og óbeinna, gætir miklu víðar. Orkuverð hækkaði upp úr öllu valdi og þótt við hér á Íslandi finnum aðeins fyrir því að tiltölulega litlu leyti, vegur hækkun á bensíni og dísilolíu engu að síður þungt, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Alþjóðleg verðbólga er mikil og hagvöxtur í okkar helstu viðskiptalöndum er langt undir meðalhagvexti undanfarinna ára. Hér er staðan önnur og betri en víðast hvar annars staðar en engu að síður stöndum við frammi fyrir miklum efnahagslegum áskorunum. Verðbólga hefur verið mikil og þrálát og viðskiptahalli meiri en búið verður við til lengdar. Til að sporna gegn verðbólgu hefur Seðlabankinn hækkað stýrivexti mikið og eru þeir nú orðnir 6,5% en urðu lægstir 0,75% í lok árs 2020. Þótt viðskiptavinir Landsbankans standi almennt vel og vanskil séu í sögulegu lágmarki, er ljóst að hærri vextir og verðbólga munu reynast mörgum erfitt. Einstaklingar og fjölskyldur sem festu vexti á íbúðalánum sínum áður en vaxtahækkunarhrinan hófst eru í ágætu skjóli. Á þessu ári en þó aðallega á árunum 2024 og 2025 mun fastvaxtatímabilum ljúka hjá mörgum okkar viðskiptavinum. Miðað við núverandi stöðu má gera ráð fyrir að vaxtaumhverfið verði töluvert óhagstæðara. Háir vextir bitna að sjálfsögðu einnig á fyrirtækjum og halda aftur af nauðsynlegum fjárfestingum.

Vonandi mun takast að ná tökum á verðbólgunni þannig að vextir geti lækkað á nýjan leik. Landsbankinn er sem fyrr í sterkri stöðu til að standa við bakið á sínum viðskiptavinum eins og kostur er.

Sjálfbærni sífellt mikilvægari

Innan bankans er mikil þekking á sjálfbærni og bankinn leggur þunga áherslu á málaflokkinn. Sjálfbærnivinnu bankans er stýrt í gegnum metnaðarfulla sjálfbærnistefnu bankans sem var uppfærð árið 2021. Bankinn er aðili að innlendu og alþjóðlegu samstarfi á vettvangi sjálfbærni og hefur m.a. tekið virkan þátt í að móta aðferðafræði PCAF við að meta losun frá lána- og eignasafni fjármálafyrirtækja. Sjálf höfum við sett okkur markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá rekstri bankans og óbeinni losun vegna útlána hans. Við finnum að viðskiptavinir, einstaklingar jafnt sem fyrirtæki, og starfsfólk sömuleiðis, hugar sífellt meira að þessum málum. Regluverkið er einnig að þyngjast. Við búum að því að lengi hefur verið hugað að sjálfbærni í bankanum og við höfum verið í fararbroddi í þessum efnum. Þar ætlum við að vera áfram.

Áherslan í sjálfbærnimálum fjármálafyrirtækja hefur á undanförnum árum verið á að meta útblástur á CO2 vegna starfseminnar. Á árinu 2022 náðist samkomulag sem kennt er við COP15-fundinn í Montreal um aðgerðir til að verja líffræðilega fjölbreytni. Þar gegna fjármálafyrirtæki augljóslega mikilvægu hlutverki en líkt og með útblásturinn þarf að vera til aðferðafræði til að meta áhrif fjármálafyrirtækja á líffræðilega fjölbreytni. Við ákváðum að vera með frá byrjun og gengum því í samtökin Partnership for Biodiversity Accounting Financials (PBAF) sem vinna að því að móta slíka aðferðafræði.

Það er ljóst að Landsbankinn mun áfram takast á við áskoranir í ytra umhverfi og samkeppni þar sem þróun í þjónustu fjármálafyrirtækja er á fleygiferð. Sterk fjárhagsstaða bankans, sem hefur á að skipa afar metnaðarfullu og harðduglegu fólki um allt land, mun gera bankanum kleift vera áfram leiðandi banki á Íslandi. Bankinn vinnur af heilum hug fyrir viðskiptavini og eigendur sína með hagsmuni starfsfólks og samfélagsins alls í huga. Að byggja höfuðstöðvar á 100 ára fresti sýnir að við hugsum til langs tíma. Landsbankinn er traustur banki fyrir farsæla framtíð.

Fyrir hönd bankaráðs þakka ég Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra, öðrum stjórnendum og starfsfólki bankans fyrir gott og árangursríkt samstarf á árinu 2022.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur