Loftslagsmál

Við leggjum okkur fram við að þekkja umhverfisáhrifin af starfsemi okkar. Vinna við að greina kolefnisspor okkar og áhrif á samfélagið heldur áfram.

Við gerum ítarlega greiningu á beinum og óbeinum umhverfisáhrifum okkar ofar í virðiskeðjunni út frá alþjóðlega viðurkenndri aðferðafræði GHG Protocol. Fyrirtæki styðjast almennt við þá aðferðafræði í útreikningum á kolefnisspori sínu. Til viðbótar þá greinum við einnig losun gróðurhúsalofttegunda frá útlánum og eignasafni bankans samkvæmt aðferðafræði samtaka um þróun loftslagsbókhalds (Partnership for Carbon Accounting Financials (PCAF) og birtum opinberlega.

Aðferðafræði GHG Protocol

Umföngin eru skilgreind á eftirfarandi máta:

Umfang 1
Bein losun frá rekstri okkar, þ.e. losun sem á sér stað undir kennitölu og rekstri bankans.
Umfang 2
Óbein losun gróðurhúsalofttegunda vegna framleiðslu raforku og hita sem við kaupum.
Umfang 3
Óbein losun vegna aðfanga og þjónustu ofar og neðar í virðiskeðju. Óbein losun vegna útlána fellur í umfang 3.

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá rekstri okkar lækkar um 48% á milli ára sé ekki litið til losunar frá útlána- og eignasafni. Sá munur felst aðallega í samdrætti frá losun vegna byggingar nýs húss bankans í miðborg Reykjavíkur sem var um 90% á milli ára og má rekja til þess að steypun var að mestu lokið. Einnig hefur áhrif að bankinn beitir nýrri aðferðafræði við útreikning á kolefnislosun í umfangi 2 en það eru smávægilegt í heildarsamhenginu.

Sé litið á hefðbundinn rekstur bankans má sjá að losun gróðurhúsalofttegunda er helst frá beinni losun vegna bruna eldsneytis frá bílum bankans og óbeinni losun vegna flugferða, ferða starfsfólks til og frá vinnu og framleiðslu tölvubúnaðar (kaup á nýjum búnaði).

Þrátt fyrir að vera enn hluti af helstu losunarvöldum bankans hefur losun vegna eldsneytisbruna frá bílum í eigu bankans dregist saman um 30% frá síðasta ári og í heildina um tæp 60% frá árinu 2019. Losun vegna ferða starfsfólks til og frá vinnu eykst lítillega á milli ára en losun vegna flugferða og kaupa okkar á tækjabúnaði eykst langsamlegast mest. Áhrif og hömlur Covid-19 fara dvínandi og má sjá merki þess í aukningu á losun tengdri flugferðum starfsfólks. Losun tengd flugferðum starfsfólks rúmlega fimmfaldaðist frá árinu á undan sem þó er einungis rétt um helmingur af losuninni árið 2019. Þá tæplega tvöfaldaðist losunin vegna framleiðslu tölvubúnaðar á milli ára en það má að hluta rekja til þess að byrjað er að setja upp og endurnýja búnað fyrir nýjar starfsstöðvar í nýja húsnæðinu. Í heildina fellur um 75% af óbeinni losun bankans í þrjá síðastnefndu flokkana, að undanskilinni losun vegna útlána- og eignasafnsins.

Losun frá framkvæmdum við nýbyggingu bankans er ekki lengur stærsti staki þátturinn í óbeinni losun bankans á eftir útlána- og eignasafninu, en það hefur verið þannig síðan framkvæmdir hófust árið 2019. Á myndinni hér að neðan má sjá hvernig losunin skiptist á milli flokka.

Losun frá hefðbundnum rekstri bankans er einungis um 0,2% af heildarlosun starfseminnar, en óbein losun vegna útlána- og eignasafns vegur þyngst. Óbein losun er ávallt fyrirferðamest í starfsemi okkar. Við getum einungis haft óbein áhrif á óbeina losun, en leitum stöðugt leiða til að lágmarka hana, til dæmis með samtali við birgja og viðskiptavini okkar. Mjög lítill hluti kolefnisspors hefðbundinnar starfsemi bankans er frá beinum rekstri eða vegna raforku og hitaframleiðslu.

Myndin hér að neðan sýnir hvernig losun okkar dreifist á milli umfanga.

Við höfum áætlað losun frá útlánastarfsemi bankans fyrir árin 2018-2021 og eignasafni bankans fyrir árin 2020 og 2021 með aðferðafræði PCAF. Aðferðafræðin byggir á fjárhagsupplýsingum fyrirtækja og því er ekki hægt að greina útlánasafn bankans fyrr en fyrirtæki hafa skilað ársreikningum. Það er mikilvægt fyrir banka að þekkja óbein áhrif sín á losun gróðurhúsalofttegunda, en án þeirra upplýsinga er erfitt að taka upplýstar ákvarðanir um loftslagsmál. Helstu niðurstöður um uppruna óbeinnar losunar má sjá á myndinni hér að neðan.

Með þessa þekkingu í farteskinu getum við lagt aukna áherslu á að vinna með fyrirtækjum og öðrum viðskiptavinum að því að fjármagna lausnir sem leiða til minni losunar gróðurhúsalofttegunda.

Villa fannst í fyrstu útgáfu PCAF-skýrslunnar sem kom út 2. febrúar 2023. Villan fannst daginn eftir og var strax leiðrétt eftir samtal við Deloitte sem endurskoðaði skýrsluna með takmarkaðri vissu (e. limited assurance). Eftir þessa leiðréttingu lækkaði heildarlosun frá lánasafni um 28,8 ktCO2 ígildi árið 2021 og 47,0 ktCO2 ígildi árið 2020. 

Starfsemin kolefnisjöfnuð

Við höfum kolefnisjafnað hefðbundna starfsemi bankans fyrir árið 2022 og fengið endurnýjun á hinni alþjóðlega viðurkenndu CarbonNeutral® vottun. Starfsemin er kolefnisjöfnuð í gegnum alþjóðlega vottuð verkefni þar sem keyptar eru vottaðar kolefniseiningar. Í samstarfi við Climate Impact Partners höfum við fjárfest í kolefniseiningum sem hafa hlotið stranga gæðavottun og sannarlega leitt til bindingar eða forðað losun gróðurhúsalofttegunda. Með þessu móti náum við að vega á móti þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem óhjákvæmilega verður í rekstrinum. Við höldum engu að síður áfram að draga úr losun í okkar rekstri og hjálpum viðskiptavinum að gera hið sama.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur