Stefnum að því að mæla áhrif á líffræðilega fjölbreytni
Við í bankanum höfum oft verið á undan löggjöfinni í sjálfbærnimálum og gripið til aðgerða án þess að okkur hafi verið það skylt. Núna hafa lagalegar kröfur aukist sem krefst þess að enn meiri kraftur sé settur í sjálfbærnimálin. Stærsta verkefni okkar núna er að undirbúa bankann fyrir innleiðingu á flokkunarkerfi Evrópusambandsins (e. EU Taxonomy) sem snýst um mat á fjárfestingum með tilliti til sjálfbærni.
Landsbankinn hefur verið aðili að samtökum um þróun loftslagsbókhalds (Partnership for Carbon Accounting Financials (PCAF)) síðan 2019 og við tókum virkan þátt í að búa til PCAF-aðferðafræðina sem mælir kolefnisspor frá lána- og eignasafni fjármálafyrirtækja. Í desember 2022 gerðumst við aðilar að samtökum um þróun bókhalds fyrir líffræðilegan fjölbreytileika (Partnership for Biodiversity Accounting Financials (PBAF)) sem vinna að því að þróa aðferð til að mæla áhrif útlána og eignasafna fjármálafyrirtækja á líffræðilega fjölbreytni. PCAF byggði á frjálsri aðild, það var engin skylda að taka þátt. Kröfur sem ESB gerir núna um upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja í loftslagsmálum byggja að miklu leyti á aðferðarfræði PCAF, en við mat á umbreytingar- og loftslagsáhættu er að mestu leyti stuðst við PCAF-gögn um losun frá lána- og eignasafni. Ég er viss um aðferðafræði PBAF, þegar þróun hennar lýkur, fái sömu stöðu og að fjármálafyrirtæki muni þurfa að nota aðferðafræðina til að greina frá áhrifum sínum á fjölbreytileika lífríkis.
Ætlum að setja okkur vísindalegt markmið
Önnur verkefni sem við í sjálfbærniteyminu vinnum nú að er að setja bankanum vísindalegt markmið í loftslagsmálum sem verði samþykkt af samtökunum Science-Based Target initiative. Þetta er heilmikið mál því það er nefnilega töluvert minna mál að setja sér óvísindalegt markmið en vísindalegt. Markmið teljast vísindaleg ef þau eru í samræmi við nýjustu rannsóknir á sviði loftslagsmála og miða að því að tryggja að samdráttur í óbeinni losun Landsbankans frá útlánum styðji við markmið Parísarsamkomulagsins um að halda hlýnun jarðar innan við 1,5°C frá iðnbyltingu.
Við höfum verið leiðandi í sjálfbærum fjármálum. Við vitum hvað klukkan slær. Við vitum hvað við þurfum að gera og ætlum að gera það vel!“