Mannauður og jafnrétti
Hjá Landsbankanum starfar fjölbreyttur hópur fólks með ólíka þekkingu, reynslu og bakgrunn. Reynslan sem býr í starfsfólkinu styrkir stoðir rekstrarins á meðan fjárfesting í öflugri endurmenntun, starfsþróun og ráðning nýrra starfskrafta tryggir stöðuga framþróun.
Landsbankinn er hreyfiafl í samfélaginu og við vinnum ötullega að því að rödd bankans sé sterk, traustvekjandi og fylli starfsfólk stolti. Við viljum efla árangursdrifna menningu og þess vegna hvetjum við starfsfólk til að finna leiðir til að leysa þarfir viðskiptavina með þeim hætti að horft sé til framtíðar.
Í byrjun árs var öllum takmörkunum vegna Covid-19 aflétt. Það má með sanni segja að það hafi verið léttir að geta boðið allt starfsfólk velkomið aftur á vinnustaðinn. Margir höfðu þá unnið samfellt í langan tíma heimavið og við tók aðlögun að nýjum veruleika þar sem ríkir aukið val um starfsstöð sem hentar á hverjum tíma.
Vinnustaður nýrra tíma
Eitt af því sem heimsfaraldur Covid-19 kenndi okkur var að tækifæri til fjarvinnu eru í mörgum störfum góð. Í upphafi árs settum við ný viðmið um sveigjanlegt vinnuumhverfi sem fela í sér áframhaldandi tækifæri til fjarvinnu þegar það hentar verkefnum. Sett voru viðmið um tveggja daga hámarksfjölda fjarvinnudaga í viku en auk þess var opnað á tækifæri til lengri fjarvinnu ef starfsfólk hefur áhuga á að vinna frá öðru landi eða landssvæði. Í vinnustaðagreiningu sem gerð var á vormánuðum kom fram að um 89% starfsfólks telur sig geta unnið á skilvirkan hátt með samstarfsfólki sínu í fjarvinnu. Þetta er gott veganesti inn í vinnustað framtíðarinnar sem kallar á sveigjanleika og fjölbreytilegt vinnuumhverfi. Einnig rímar þetta ágætlega fyrri könnun um áhuga starfsfólks á heimavinnu sem lögð var fyrir í árslok 2021, þar sem kom fram að 62% starfsfólks hafi áhuga á að vinna 1-2 daga í viku í fjarvinnu.
Flutningur í ný húsakynni á Austurbakka
Við hlökkum mikið til að flytja í nýtt húsnæði við Austurbakka og höfum lagt áherslu á góðan undirbúning starfsfólks og stjórnenda fyrir nýtt vinnuumhverfi, enda ekki einungis um nýtt húsnæði að ræða. Austurbakki verður nýr vinnustaður sem býður upp á verkefnamiðað vinnuumhverfi og þar með töluvert betri tækifæri til samstarfs og samskipta en fyrri vinnustaðir í Kvosinni.
Mannauðsstefna
Hjá Landsbankanum starfar framúrskarandi fólk með fjölbreyttan bakgrunn. Í mannauðsstefnu bankans er lögð áhersla á starfsánægju, gott starfsumhverfi og markvissa starfsþróun.
Líðan í vinnunni
Á hverju ári framkvæmum við kannanir á líðan og viðhorfi starfsfólks. Á fyrri hluta árs er gerð ítarleg vinnustaðagreining og önnur umfangsminni á haustin. Sú síðarnefnda kallast bankapúlsinn og fylgir eftir þeim umbótamarkmiðum sem sett eru í kjölfar stóru vinnustaðagreiningarinnar að vori. Saman gefa þessar kannanir mikilvægar vísbendingar um líðan og viðhorf starfsfólks til vinnustaðarins. Í lok árs 2021 var tekin í notkun ný lausn við mælingar starfsánægju. Fyrsta mæling með nýrri aðferð sýndi lækkun á milli mælinga. Það má að einhverju leyti skýra með breytingum á spurningum en aðrar spurningar sýna marktækan mun á milli mælinga. Verkefni tengd miðlun upplýsinga, innri markaðssetningu og endurgjöf til starfsfólks hafa verið í gangi til að mæta þessum vísbendingum kannananna.
Jafnrétti í víðu samhengi
Við höfum um árabil sett jafnréttismál á oddinn og skoðað ólíkar nálganir til að tryggja árangur. Við tókum þátt í Jafnréttisvísi sem gaf okkur góðar vísbendingar um hvar þörf var á úrbótum. Í framhaldinu voru mótuð verkefni og fræðsla sem stuðla markvisst að því að skapa góða fyrirtækjamenningu sem styður við jafnrétti og virðingu fyrir fjölbreytileika í samfélaginu og á vinnustaðnum.
Á árinu voru sett ný viðmið um þátttöku bankans í launum í fæðingarorlofi starfsfólks til að stuðla að jafnari þátttöku kynja í umönnun barna. Ákveðið var að tryggja fastráðnu starfsfólki 80% af launum í fæðingarorlofi með viðbótarstyrk á móti fæðingarorlofssjóði, í samræmi við reglur sjóðsins. Mótgreiðslur samkvæmt kjarasamningi Samtaka starfsfólks fjármálafyrirtækja eru samt sem áður í gildi, þ.e. allir sem hafa mánaðarlaun kr. 750.000 eða lægri halda sínum launum í fæðingarorlofi.
Við fengum Samtökin '78 til að fræða okkur um hinseginleikann á árinu með námskeiði um grunnhugtök og jákvæða samskiptamáta sem stuðla að inngildingu. Hugað er að jafnréttismálum, mannréttindum og fjölbreytileika samfélagsins á mismundandi stigum starfseminnar, s.s. í ráðningum, jöfnum starfstækifærum, samstarfsverkefnum og þegar ákveðið er hverjir koma fram fyrir hönd bankans.
Jafnræði í stefnumótun og launamálum
Við erum með skýra jafnréttisstefnu. Lögð er áhersla á að allir njóti sömu starfstækifæra og að ákveðin störf flokkist ekki sem sérstaklega kynjuð. Rík áhersla er lögð á að öllum séu greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf. Ný jafnréttisáætlun var gefin út í upphafi ársins og unnið er markvisst eftir henni.
Velferð og vellíðan í starfi
Við leggjum áherslu á vellíðan í starfi og að starfsfólk geti samræmt vinnu og einkalíf. Mælingar á árinu sýna að 77% starfsfólks telja vinnustaðinn veita sér tækifæri til að halda þessu jafnvægi. Áhersla hefur verið lögð á stuðning við andlega og líkamlega heilsu starfsfólks, meðal annars með auknu aðgengi að þjónustu fagaðila á svið heilbrigðis. Fræðsla á vegum bankans endurspeglaði þessa áherslu með námskeiði um streitu og viðbrögð við henni, sem haldið var í samstarfi við Auðnast.
Jafnlaunavottun
Lögbundin jafnlaunavottun tók formlega gildi hjá okkur í mars 2019. Við fylgjumst stöðugt með þróuninni og upplýsingum um launamun er miðlað til framkvæmdastjórnar mánaðarlega. Áður en bankinn hlaut lögbundna jafnlaunavottun höfðum við í tvígang hlotið gullmerki jafnlaunaúttektar PwC, upphaflega árið 2015, fyrst banka. Aðhvarfsgreining desemberlauna 2022 leiðir í ljós að launamunur kynjanna er 1,2%, körlum í vil. Stöðugt er unnið að því að draga úr launamun og bæta jafnlaunakerfið þannig að það styðji markmið okkar um engan launamun og gæði launaákvarðana.
Jafnrétti í ráðningarferli
Haldið hefur verið utan um kynjahlutfall umsækjenda og viðtalsboðun skráð, auk upplýsinga um endanlega ráðningu. Enn fremur höfum við unnið að því að upplýsa stjórnendur um ómeðvitaða fordóma í ráðningarferlinu og leiðir til þess að draga úr áhrifum þeirra. Sérstök áhersla hefur verið á að jafna hlutföll í hópum stjórnenda og hefur þróunin verið jákvæð.
Jöfn tækifæri til starfsþróunar og símenntunar
Við leggjum áherslu á að allir hafi jöfn tækifæri til þátttöku í fræðslu. Starfsþróunarverkefni sem hefur verið unnið að undanfarin ár lauk á vormánuðum við góðan orðstýr. Markmiðið með því er að styrkja starfsfólk í sinni starfsþróun. Í vinnustaðagreiningu bankans er sérstaklega spurt um jafnrétti kynja innan bankans og tæp 90% starfsfólks upplifir jöfn tækifæri.
Jafnrétti í innri og ytri samskiptum
Við gerum okkur grein fyrir mikilvægi fyrirmynda. Undanfarin misseri hefur markvisst verið skráð hver koma fram fyrir hönd bankans í fjölmiðlum, á ráðstefnum og fundum utan bankans. Auk þess er skráð hverjir skrifa greinar á vefinn. Það hefur reynst gott aðhald. Kynjahlutfall þeirra sem komið hafa fram fyrir hönd bankans á undanförnum árum hefur verið mjög jafnt en á árinu 2022 hallaði töluvert á karla. Til lengri tíma er stefnt að því að þetta hlutfall verði sem jafnast.
Skýr viðbragðsáætlun
Við erum með skýra viðbragðsáætlun við einelti, kynbundnu misrétti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi (EKKO). Allt starfsfólk fær reglubundna fræðslu um málefnið og vinnustofur eru haldnar fyrir stjórnendur bankans. Vitund starfsfólks og stjórnenda um málefnið hefur aukist með reglubundinni miðlun upplýsinga og fræðslu og fagleg úrvinnsla verið tryggð. Starfsfólk getur rætt við óháðan ytri fagaðila ef upp koma erfið mál. Mæling á tíðni atvika, upplifana og tilkynninga er hluti af árlegri vinnustaðagreiningu. Fræðsla og upplýsingamiðlun fer reglulega fram á upplýsingaveitum bankans.
Jafnrétti og fjölbreytileiki í samstarfsverkefnum og markaðsefni
Við erum meðvituð um jafnréttissjónarmið, mannréttindi og fjölbreytileika samfélagsins þegar kemur að markaðsefni og í samstarfsverkefnum. Við styðjum við bakið á samfélaginu og leggjum okkur sérstaklega fram við að veita brautargengi ólíkum verkefnum og samtökum víðsvegar um landið. Við viljum láta boltann rúlla í þeirri merkingu að við erum traustur bakhjarl til nokkurra ára og síðan tekur næsta verkefni við. Við horfum til þess að styðja við íþróttastarf, menningu og listir til viðbótar við góðgerðamál og menntamál.
Jafnræði í aðgengismálum í appi og á vef
Okkur þótti mikilvægt að huga að aðgengismálum á öllum stigum þróunar Landsbankaappsins. Aðgengismál voru höfð í fyrirrúmi allt frá upphafi og fengum við til þess góða aðstoð og leiðbeiningar. Það sama á við um þróun á vef Landsbankans þar sem lögð er áhersla á aðgengi fyrir öll. Við viljum líka efla aðgengi fólks af erlendum uppruna að fjármálaþjónustu og bjóðum því notendum upp á viðmót á ensku og pólsku, auk íslensku, í bæði netbankanum og appinu.
Stuðningur við starfsfólk af erlendum uppruna
Við viljum styðja betur við starfsfólk af erlendum uppruna en starfsfólki með annað móðurmál en íslensku er boðið upp á íslenskukennslu í samvinnu við fagaðila, þar sem kennslan er sniðin að þörfum hvers og eins. Með því viljum við vera eftirsóknarverður vinnustaður fyrir fólk með fjölbreyttan bakgrunn.
Heildstæð lærdómsmenning
Við höfum lagt mikla áherslu á að starfsfólk fái stuðning og tækifæri til þess að huga að eigin starfsþróun og bæta við sig þekkingu. Starfsumhverfi okkar er í örri þróun og því er mikilvægt að starfsfólki standi til boða heildstæð fræðsla innan sem utan bankans í takt við stefnu, áskoranir og verkefni bankans á hverjum tíma. Við viljum einnig nýta vettvang fræðslunnar til að efla starfsfólk persónulega og almennt auka vellíðan og velferð þess.
Áherslur í fræðslustarfi
Áherslur í fræðslustarfi bankans á árinu sneru að andlegri velferð og vellíðan starfsfólks. Starfsfólk var að snúa til baka á vinnustað eftir langan tíma í fjarvinnu og mikilvægt að hlúa sérstaklega að vellíðan þess. Væntanlegir flutningar Landsbankans settu einnig svip sinn á árið. Unnið var að undirbúningi og framleiðslu fræðsluefnis sem ætlað er að styðja við starfsfólk í þeim breytingum sem fylgja því að flytja í nýtt og breytt starfsumhverfi, auk þess sem haldnar voru vinnustofur með öllum sem flytja í Austurbakka.
Á fræðsludagskránni var sem fyrr fjölbreytt framboð fræðslu sem snýr að innra verklagi, s.s. vörum og þjónustu, lögum og reglum. Fræðslan var í formi fyrirlestra, námskeiða og vinnustofa auk rafrænnar fræðslu.
Það var ánægjulegt að geta haldið viðburði á staðnum eftir að fjöldatakmörkunum var aflétt. Vinnustofur og fyrirlestrar á staðnum voru margir yfir árið en við nutum líka góðs af þeirri reynslu sem fengist hefur af notkun fjarfundarbúnaðar og rafrænnar fræðslu. Með því að byggja á þeirri reynslu höfum við getað séð til þess að starfsfólk á landsbyggðinni og utan höfuðstöðva hafi aukið aðgengi að fræðslu.
Markviss starfsþróun
Verkefnið um markvissa starfsþróun miðar að því að efla starfsfólk bankans í færniþáttum sem taldir eru mikilvægir á vinnumarkaði framtíðarinnar. Þessir færniþættir eru m.a. leiðtogafærni, samskiptafærni, gagnrýnin og lausnamiðuð hugsun og hæfni í samvinnu. Þátttakendur sækja námskeið og markþjálfun sem stendur yfir í tvær annir. Í heildina hafa 62 einstaklingar tekið þátt í verkefninu á síðastliðnum 3 árum.
Virkni í fræðslu
Sé litið til fræðslu sem er ekki skyldufræðsla sótti 80% starfsfólks sér starfstengda fræðslu á vegum bankans á árinu.
Áhersla á stjórnendaþjálfun
Mikil áhersla var á stjórnendaþjálfun á árinu 2022. Öllum stjórnendum var boðið á stjórnendamót snemma á árinu þar sem lagðar voru línur fyrir fræðslustarf vor- og haustannar. Markmið fræðslunnar var undirbúningur fyrir nýjan verkefnamiðaðan vinnustað og þær áskoranir sem fylgja breyttu vinnuumhverfi í kjölfar Covid-19. Áherslan liggur á stjórnun sem byggir á trausti, endurgjöf og hvatningu í starfi.
Stjórnendum stendur til boða að sækja sér stjórnendamarkþjálfun allan ársins hring.
Tökum vel á móti nýliðum
Á fyrstu vikum og mánuðum í starfi þarf nýtt starfsfólk að ljúka rafrænni skyldufræðslu. Fræðslan snýr m.a. að almennum upplýsingum um starfsemi bankans, regluverki og siðasáttmála. Stjórnendur bera ábyrgð á því að nýtt starfsfólk fái góðar móttökur og viðeigandi þjálfun á starfsstöð. Á seinni hluta árs var öllum nýliðum ársins boðið til fundar við bankastjóra og framkvæmdastjórn til að ræða málin og kynnast betur. Þetta hefur verið vettvangur til að bjóða nýtt starfsfólk velkomið og efla tengslamyndun þvert á bankann. Mæting hefur verið mjög góð og vel af verkefninu látið.
Það var sérstaklega ánægjulegt að geta aftur boðið nýju sumarstarfsfólki á fræðsludag þar sem blandað er saman vinnu og ánægju og grunnurinn lagður að góðu samstarfi.
Undirbúningur starfsloka
Starfsfólki sem hyggur á starfslok vegna aldurs á næstu tveimur árum er boðið að sækja tveggja daga námskeið til þess að undirbúa sig sem best fyrir þessi mikilvægu tímamót. Lögð er áhersla á staðkennslu á þessum námskeiðum og góða tengslamyndun.
Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.