Snjallari bankaþjónusta hvar sem þú ert

Við viljum að viðskiptavinir okkar geti sinnt öllum sínum bankaviðskiptum hvar og hvenær sem er. Á árinu héldum við áfram að fjölga aðgerðum í appinu og netbankanum, við settum Aukakrónurnar í símann og Spara í appi sló í gegn. Við héldum líka áfram að styrkja grunnkerfin okkar enda þarf öll framþróun að byggja á traustum tæknilegum grunni.

Snertilausar greiðslur fyrir alla

Við vorum fyrst til að bjóða viðskiptavinum á Íslandi upp á að tengja kortin sín við Apple Pay og árið 2022 bættum við Google Pay í flóruna. Google Pay er hraðvirk, einföld og örugg greiðsluleið fyrir Android-tæki sem viðskiptavinir nota til að borga með símanum í verslunum og netverslunum.

Viðskiptavinir geta skráð öll kortin sín, debet-, kredit-, Aukakrónu- og gjafakort Landsbankans, í símann eða úrið og byrjað að borga snertilaust. Þessu fylgja engin aukagjöld og greiðsluleiðin er mjög örugg.

Greiðslum með snjalltækjum hefur fjölgað verulega á undanförnum árum. Árið 2022 voru 39,5% kortagreiðslna á sölustað gerðar með símum eða úrum sem er aukning um 18% á milli ára.

Við bættum við ýmsum nýjungum í appið sem einfalda fólki lífið. Ein þeirra er að foreldrar og forsjáraðilar geta nú stofnað reikninga fyrir börn sín í appinu og fá sjálfkrafa skoðunaraðgang að bankareikningum barna sinna sem eru yngri en 18 ára.

Betri verðbréfaviðskipti í appinu og netbankanum

Viðskiptavinir geta nú á auðveldan hátt átt viðskipti á aðalmarkaði Nasdaq OMX Iceland og First North hlutabréfamarkaðnum í appinu og netbankanum. Þar er líka hægt að eiga viðskipti með alla sjóði Landsbréfa, þar með talið sjóði sem fjárfesta í erlendum verðbréfum. Einnig er hægt að stofna mánaðarlega áskrift að sjóðum Landsbréfa, fylgjast með eignasafninu, gera samanburðargreiningar og fá skýr yfirlit yfir verðbréfaeign og viðskiptasögu. Í appinu er líka hægt að skoða upplýsingar um inneign, réttindi og hreyfingar á lífeyrissparnaði hjá Íslenska lífeyrissjóðnum. Sem sagt – hægt er að nálgast upplýsingar um allar fjárfestingar og sparnað á einum stað.

Nánari upplýsingar er hægt að finna í kaflanum um eignastýringu og miðlun.

Aukakrónurnar í símann slógu í gegn

Ein af þeim lausnum sem slógu í gegn á árinu var Aukakrónur í símann. Frá og með nóvembermánuði gátu viðskiptavinir nálgast Aukakrónukortið sitt í Landsbankaappinu og fært það á einfaldan hátt beint í farsímaveskið. Þar með var hægt að nota símann til að borga með Aukakrónum á sama hátt og með öllum öðrum kortum bankans. Í appinu er líka hægt að sjá inneign á Aukakrónusöfnuninni og fullt kortanúmer til að nota í vefverslun. Þótt Aukakrónur hafi ekki komið í símann fyrr en seint á árinu sló lausnin svo rækilega í gegn að notkun á Aukakrónum jókst um 22% á milli ára. Þetta er enn eitt dæmið um að viðskiptavinir kunna vel að meta tæknilausnir sem einfalda þeim lífið og eru fljótir að tileinka sér þær.

Rafræn þinglýsing sparar tíma og fyrirhöfn

Á árinu varð Landsbankinn fyrstur til að bjóða viðskiptavinum upp á rafræna þinglýsingu við endurfjármögnun íbúðalána. Um er að ræða stórt og viðamikið verkefni sem markvisst hefur verið unnið að frá árinu 2019, í góðu samstarfi við sýslumannsembættin og fleiri.

Þetta þýðir að nú geta viðskiptavinir endurfjármagnað íbúðalánin sín, gengið frá skjölunum og bankinn svo þinglýst rafrænt. Ekki er lengur þörf á að fara til sýslumanns til að þinglýsa. Með þessu styttist biðtími og lánin eru afgreidd á nokkrum mínútum sem sparar viðskiptavinum okkar bæði sporin og mikinn tíma. Um 30% af endurfjármögnuðum íbúðalánum á árinu var þinglýst rafrænt og við sjáum fram á að fljótlega verði öllum íbúðalánum þinglýst rafrænt.

Síðastliðið haust byrjuðum við að þinglýsa bílalánum rafrænt og hefur það verkefni gengið vel. Okkar markmið er að einfalda viðskiptavinum lífið og rafræn þinglýsing lána styður við það.

Fjölskylda við rafbíl

Sterk auðkenning er öflugri vörn gegn fjársvikum

Nýjar reglur um það sem nefnist sterk auðkenning hafa tekið gildi en þær gera meðal annars strangari kröfur um innskráningu í netbanka og app og staðfestingu á greiðslum. Tilgangurinn er meðal annars að auka öryggi í hvers konar greiðslum. Því er fólk nú beðið um að skrá sig inn og staðfesta greiðslur með sterkri auðkenningu á borð við lífkenni, rafræn skilríki og með Auðkennisappinu.

Sveigjanleg en örugg þjónusta

Að uppfylla nýju reglurnar er stórt hugbúnaðarverkefni fyrir alla banka. Umfang verkefnisins er ástæðan fyrir því að viðskiptavinir okkar upplifa breytinguna ekki á einni nóttu, heldur í áföngum yfir lengri tíma. Annars vegar breyttist innskráning í netbanka og app Landsbankans vorið 2022 og hins vegar hófust breytingar á greiðsluaðgerðunum haustið 2022.

11.000 fyrirtæki nota Landsbankaappið

Viðskiptavinir okkar hafa ávallt verið duglegir að nýta sér stafrænar lausnir og tekið nýjungum fagnandi. Um 11.000 fyrirtæki hafa notað Landsbankaappið og rúmlega 6.000 fyrirtæki nota það oft í mánuði. Aðgerðafjöldinn í appinu jókst til mikilla muna í hverjum mánuði allt síðasta ár og hefur samdráttar gætt í netbankanum sem því nemur, aðallega hjá smærri fyrirtækjum og einyrkjum. Þegar beintengingar úr bókhaldi (B2B-samskipti) eru meðtalin fara yfir 98% daglegra bankaviðskipta fyrirtækja fram í sjálfsafgreiðslu. 

Notkun fyrirtækja á Landsbankaappinu jókst um 123% árið 2022. Appið er hlaðið möguleikum og aðgerðum sem auðvelda fyrirtækjum daglegan rekstur og sparar öllum sporin. 

Í appinu er auðvelt að skipta á milli fyrirtækja- og einstaklingsviðskipta, stofna bankareikninga, debetkort, kreditkort og innkaupakort, eiga viðskipti með hlutabréf og sjóði, auk fjölda annarra aðgerða og gagnlegra yfirlita. 

Fleiri viðskiptavinir stofna kröfur en áður

Útgefendum krafna fjölgaði um 9,2% milli ára. Aukningin er sprottin af nýjum viðskiptasamböndum en líka til marks um nýja uppbyggingu og viðreisn margra atvinnugreina í kjölfar heimsfaraldursins. Árið 2022 stofnuðu viðskiptavinir yfir 13 milljónir krafna í netbankanum eða appinu, sem er met.

Stofnun innheimtusamninga í sjálfsafgreiðslu jókst um 22 prósentustig milli ára og nemur nú 56,4%.  

Líkt og mörg undanfarin ár framkvæma viðskiptavinir nær allar innheimtuaðgerðir í sjálfsafgreiðslu, eða yfir 99% þeirra. Þar á meðal er stofnun krafna, breyting þeirra, framhaldsinnheimta og niðurfelling krafna. Að sama skapi eru langflestar kröfur greiddar í sjálfsafgreiðslu. 

Þriðjungi fleiri beingreiðslusamningar stofnaðir í sjálfsafgreiðslu

Frá árinu 2019 geta fyrirtæki stofnað beingreiðslusamning fyrir hönd greiðenda, svo greiðendur þurfi ekki að gera það sjálfir í sínum netbanka eða útibúi. Breytingin lækkar til muna umsýslukostnað viðskiptavina, auk þess að hækka þjónustustigið gagnvart þeim og þeirra viðskiptavinum. Þjónustan veitir Landsbankanum samkeppnisforskot og jókst sjálfsafgreiðslan um 31,3% á árinu. 

Greiðslur til útlanda aldrei fleiri

Greiðslum fyrirtækja til útlanda fjölgaði um 12,3% milli ára og voru 96,5% þeirra framkvæmdar í sjálfsafgreiðslu. Fjölgun greiðslna er í takt við tölur Hagstofunnar um aukinn innflutning fyrirtækja, auk þess sem greiðendum fjölgaði um 10,6% á árinu, meðal annars vegna nýrra viðskiptavina.

Í mars 2022 tóku gildi viðskiptaþvinganir á rússneska banka vegna stríðsins í Úkraínu. Þvinganirnar hafa óveruleg áhrif á greiðslur frá íslenskum fyrirtækjum þar sem umfang þeirra gagnvart viðkomandi bönkum er almennt lítið. 

Flest fyrirtæki stýra vöruúrvalinu

Í netbanka fyrirtækja geta viðskiptavinir keypt vörur og sótt ókeypis viðbætur fyrir bæði netbankann og appið. Núorðið nota flest fyrirtæki þessa leið til að fjölga netbankanotendum, bankareikningum og kortum, til að aðlaga bankaþjónustuna sem best að rekstrinum og til að fínstilla aðgangsréttindi starfsfólks í samræmi við starfssvið viðkomandi. 

Viðskiptavinir afgreiða sig sjálfir með flestar þessara aðgerða, eða í yfir 75% tilfella. Aukningin í fyrra er til marks um ánægju viðskiptavina með að fá að inna þessi verk af hendi á þeim tíma sólarhrings sem þeim sjálfum hentar. 

Aukning í sjálfsafgreiðslu

Bankareikningar
12,1%
Orlofsreikningar
26,7%
Kreditkort
11,4%
Innkaupakort
7,6%

Vinsælustu innlánareikningarnir stofnaðir í sjálfsafgreiðslu í 82% tilfella

Fyrirtæki geta stofnað um 30 tegundir bankareikninga á eigin spýtur. Sé eingöngu litið til fimm vinsælustu reikningstegundanna þá eru 82% þeirra stofnaðir í sjálfsafgreiðslu. Það er rúmlega 4% vöxtur milli ára.

Flestir samningar undirritaðir rafrænt

Mikil breyting hefur orðið á kröfum viðskiptavina um fjármálaþjónustu. Þeir vilja nýta sjálfsafgreiðslu bankans á fleiri vegu og hafa greiðara aðgengi á sem flestan máta. Undirritun samninga er eitt skýrasta dæmið um þetta, en nærri 70% allra samninga viðskiptavina eru undirritaðir rafrænt.

Góður árangur í baráttu gegn fjársvikum á netinu

Viðskiptavinir eiga að geta sinnt öllum sínum bankaviðskiptum hvar og hvenær sem er. Til að það sé hægt rekur Landsbankinn fjölda öryggiskerfa og hefur auk þess á að skipa teymi netöryggissérfræðinga sem er í virku samstarfi við aðra sérfræðinga og banka víða um heim. Við höfum birt fjölda frétta og greina með aðvörunum og leiðbeiningum til fólks og fyrirtækja.

Sagan sýnir að fræðsla gegnir lykilhlutverki í baráttunni við netsvikin – árangurinn sem hefur náðst á þeim vígstöðvum er mestan part sprottinn af bættum viðbrögðum samfélagsins alls. 

Við munum áfram efla fræðslustarfið og leggja okkar af mörkum til að stuðla að vitundarvakningu í samfélaginu. Við höldum líka áfram að hagnýta til hlítar sjálfvirka áhættugreiningu, fjársvikagreiningu, mynsturgreiningu, válista, viðurlagaskimun og ýmsar aðrar varnir gegn netsvikum og peningaþvætti.

Vel heppnuð útleiðing á stórtölvu RB

Stöðug fjárfesting í tæknilegum innviðum bankans birtist viðskiptavinum ekki alltaf með beinum hætti. Góðir innviðir auðvelda bankanum að bjóða upp á nýjungar í þjónustu, ásamt því að gera tækniumhverfið öruggara og stöðugra.

Eitt af stærri hugbúnaðarverkefnum undanfarinna ára var innleiðing á Sopra innlána- og greiðslukerfinu í samvinnu við Reiknistofu bankanna (RB) sem bankinn tók í notkun í lok árs 2017. Landsbankinn var fyrsti bankinn sem innleiddi kerfið. Þegar allir viðskiptavinir RB höfðu innleitt Sopra-kerfið, sem gerðist ekki fyrr en loks á árinu 2022, var mögulegt að ráðast í að einfalda enn frekar innviði RB í samvinnu og samstarfi við viðskiptavini félagsins, þ.m.t. Landsbankann.

Eldri kerfisuppbygging RB byggði á hagnýtingu stórtölvu en eftir að Sopra-kerfið var innleitt gerðu tækniinnviðir banka og sparisjóða það ekki lengur. Það kallaði á sértengingar við RB sem fólu í sér aukinn kostnað. Nýja Sopra-kerfið byggir ekki á stórtölvu sem þýðir að frá því Sopra fór fyrst í loftið þurfti að reka tvöfalt umhverfi í RB, annars vegar gamla kerfið með sértengingar við stórtölvuna og hins vegar nýja heiminn með tengingu við Sopra. Það var því mikilvægt þegar samkomulag náðist um að RB og þeirra viðskiptavinir ásamt samstarfsaðilum myndu stefna að útleiðingu stórtölvunnar árið 2022.

Verkefnið skiptist í nokkra hluta. RB þurfti að útleiða eða uppfæra þau kerfi sem keyrðu á stórtölvunni og viðskiptavinir RB þurftu að aðlaga sín kerfi og nýta nýja tækniinnviði RB. Fyrir Landsbankann voru stærstu verkefnin tengd flutningi útgáfu debetkorta og heimildagjöf þeirra, breytingum á hraðbankahugbúnaði og uppfærslu á kerfum bankans sem voru enn að nota eldri tækniinnviði RB og byrja nota nýja kynslóð tæknikerfa. Þar sem bankinn var að sækja gögn til RB með skráasamskiptum tók gagnatorg RB við og strengjasamskipti voru útleidd með hagnýtingu á þjónustutorgi. Þetta krafðist endurnýjunar á stórum hluta af bakenda innheimtukerfisins og breytinga á greiðslukerfum.

Þessu verkefni var að mestu lokið í lok árs 2022 en áætlað er að því ljúki endanlega á fyrsta ársfjórðungi 2023. Þegar því er lokið standa væntingar til að það skili hagræðingu í rekstri og þjónustu RB og nútímalegri tæknilausnum sem auðveldara er að reka og þróa áfram.

Fólk í tölvu

Einföldun tækniumhverfis

Samhliða stafrænni þróun og auknu framboði lausna í sjálfsafgreiðslu hefur Landsbankinn unnið að tiltekt og einföldun í eigin tækniumhverfi.

Bankinn hefur undanfarin ár lagt áherslu á að einfalda tækniumhverfi sitt með því að uppfæra kerfi og taka til í þeim lausnum þar sem notkun hefur minnkað eða breyst og möguleiki er á einföldun. Einnig er stöðug vinna við eðlilega endurnýjun á vélbúnaði og við að tryggja að sá vélbúnaður sem bankinn notar sé studdur af framleiðanda og uppfærður reglulega.

Gagnagrunnar bankans hafa verið einfaldaðir og unnið hefur verið að fækkun á þjónustuumhverfum og nútímavæðingu viðmóta þeirra lausna sem viðskiptavinir bankans nota, s.s. appsins og netbankans, en einnig þeirra kerfa sem starfsfólk notar við vinnu sína.

Þessi vinna gerir bankann sveigjanlegri og fljótari að bregðast við nýjum og breyttum þörfum ásamt því að auðvelda okkur að bjóða upp á nýjungar í þjónustu. Með því að nota nýjustu kerfin og nýjustu tæknina er sömuleiðis auðveldara fyrir bankann að sækja sér starfsfólk sem þekkir nútímalegt tækniumhverfi.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur