Fjármögnun

Fjármögnun Landsbankans grundvallast á þremur meginstoðum: Innlánum frá viðskiptavinum, fjármögnun á markaði og eigin fé. Lánshæfiseinkunn Landsbankans er metin BBB/A-2 með stöðugum horfum af S&P Global Ratings.

Lánshæfismat Landsbankans

Innlán frá viðskiptavinum

Stærstur hluti fjármögnunar Landsbankans er í formi innlána frá viðskiptavinum sem námu 968 milljörðum króna í árslok 2022 og eru að mestu leyti óverðtryggð og óbundin. Innlán frá viðskiptavinum jukust um 68 milljarða króna á árinu. Verðtryggð innlán námu 160 milljörðum króna í lok árs 2022 og hækkuðu um 24 milljarða króna frá fyrra ári.

Fjármögnun á markaði

Skuldabréfaútgáfa á erlendum mörkuðum og erlendar lántökur

Erlendar skuldabréfaútgáfur eru veigamesta stoðin í fjármögnun bankans á markaði. EMTN-skuldabréfarammi bankans er tveir milljarðar evra að stærð og var stækkaður úr 1,5 milljörðum evra á árinu 2017. Fyrstu skref í útgáfum undir rammanum voru tekin haustið 2015 og hefur bankinn verið reglulegur útgefandi á erlendum skuldabréfamörkuðum frá þeim tíma. Á árinu 2021 birti bankinn sjálfbæra fjármálaumgjörð með vottun frá Sustainalytics.

Í janúar gaf bankinn út skuldabréf í sænskum krónum til eins og tveggja ára, samtals að fjárhæð 1.700 milljónir sænskra króna og í norskum krónum til tveggja ára að fjárhæð 500 milljónir norskra króna.

Í ágúst gaf bankinn út skuldabréf í norskum krónum til 1,5 og 2,5 ára, samtals að fjárhæð 650 milljónir norskra króna.

Eftirstöðvar skuldabréfs að fjárhæð 300 milljónir evra voru á gjalddaga í mars 2022 en þar af hafði bankinn áður keypt til baka tæplega 156 milljónir evra árið 2021.

Í árslok 2022 námu erlendar skuldabréfaútgáfur samtals 254 milljörðum króna og lækkuðu um 14 milljarða króna á árinu.

Sértryggð skuldabréfaútgáfa

Útgáfurammi bankans fyrir sértryggð skuldabréf er 2.500 milljónir evra og var stækkaður úr 250 milljörðum króna á árinu 2022. Ramminn var uppfærður á árinu 2022 svo unnt verði að gefa út sértryggð skuldabréf í erlendri mynt undir rammanum auk þess sem ramminn var skráður í kauphöll á Írlandi, Euronext Dublin.

Á árinu 2022 voru regluleg útboð á sértryggðum skuldabréfum þar sem áður útgefnir flokkar voru stækkaðir auk þess sem nýr óverðtryggður flokkur, LBANK CB 27, var gefinn út. Einn flokkur var á gjalddaga á árinu, verðtryggði flokkurinn LBANK CBI 22. Samningar um viðskiptavakt á eftirmarkaði með sértryggð skuldabréf útgefin af bankanum voru endurnýjaðir á árinu.

Sértryggðar skuldabréfaútgáfur bankans námu 223 milljörðum króna í árslok 2022 og nam aukningin 5 milljörðum króna á árinu.

Víxlaútgáfa

Engin víxlaútboð voru haldin á árinu en bankinn hefur sett upp 50 milljarða króna útgáfuramma fyrir víxla og skuldabréf. Engir víxlar voru á gjalddaga á árinu og engir víxlar voru útistandandi í árslok 2022.

Víkjandi útgáfa

Víkjandi útgáfa í krónum undir útgáfuramma bankans fyrir víxla og skuldabréf nam 5,5 milljörðum króna í árslok og víkjandi útgáfa undir EMTN-ramma bankans nam 100 milljónum evra á sama tíma. Báðar útgáfurnar teljast til eiginfjárþáttar 2 og námu samtals 22 milljörðum króna í árslok 2022 og jókst fjárhæð víkjandi útgáfu um einn milljarð króna á árinu.

Hlutafé

Eigið fé bankans nam 279 milljörðum króna í árslok 2022 og lækkaði um 4 milljarða króna á árinu.

Landsbankinn greiddi út arð til hluthafa að fjárhæð 14.409 milljónir króna á árinu 2022 auk þess að greiða sérstaka arðgreiðslu að fjárhæð 6.141 milljón króna.

Eiginfjárhlutfall Landsbankans var 24,6% í árslok 2022.

Lánshæfismat

Frá árinu 2014 hefur lánshæfi Landsbankans verið metið af alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækinu S&P Global Ratings. Í apríl 2020 var lánshæfismat bankans lækkað og er nú BBB/A-2 með stöðugum horfum.

Lánshæfismat S&P Global Ratings
Langtíma BBB
Skammtíma A-2
Horfur Stöðugar
Útgáfudagur Apríl 2020

Lánshæfismat á sértryggð skuldabréf

Í janúar 2021 fékk Landsbankinn lánshæfismat á sértryggð skuldabréf útgefin af bankanum frá S&P Global Rating. Í maí 2022 var lánshæfismat sértryggðra skuldabréfa útgefin af bankanum hækkað í A.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur