Traust samvinna við fyrirtæki og atvinnulífið

Við studdum við vöxt og viðgang atvinnulífsins með því að lána til áhugaverðra verkefna og styðja við uppbyggingu og rekstur fyrirtækja. Útlán bankans jukust umtalsvert og fjöldi nýrra fyrirtækja kom í viðskipti.

Árið 2022 jukust útlán Landsbankans til fyrirtækja um 92 milljarða króna, eða um 14%. Ef litið er framhjá gengisáhrifum var aukningin 80 milljarðar króna sem jafngildir um 10% útlánavexti. Mikill vöxtur var í bíla- og tækjafjármögnun fyrirtækja og við vorum sem fyrr umsvifamikil í fjármögnun íbúðabyggingar. Þannig lögðum við okkar af mörkum til að stuðla að auknu framboði á nýju húsnæði fyrir stækkandi samfélag.

Markaðshlutdeild bankans meðal fyrirtækja sem skila ársreikningi var 33,1% í lok árs 2022 sem er svipað og árið 2021. Hlutdeild okkar í heildarútlánum til fyrirtækja er áfram um 40%. Fyrirtækjum í viðskiptum við bankann fjölgaði um hátt í 2.000 á árinu og er skýringin að okkar mati einkum sú að við höfum bætt enn frekar þjónustu við lítil og meðalstór fyrirtæki.

Þrátt fyrir hækkandi vaxtastig erum við sem fyrr sterkur lánveitandi á byggingarmarkaði og umsvifin þar eru áfram mikil. Við sjáum líka að það er góður gangur í útflutningsgreinum, ferðaþjónustunni þar á meðal, en stjórnendur fyrirtækja hafa varann á við ákvarðanir um stórar fjárfestingar.

Við stöndum með ferðaþjónustunni

Hagvöxtur á Íslandi veltur mikið á ferðaþjónustunni og því er mikilvægt að á árinu 2022 hafi atvinnugreinin náð vopnum sínum aftur eftir heimsfaraldurinn.

Ferðaþjónusta var í mikilli vörn á árunum 2020 og 2021 vegna heimsfaraldursins og við unnum náið með viðskiptavinum að því að takast á við mikinn tekjusamdrátt. Úrræði sem við gátum boðið voru einkum stuðningslán, viðbótarlán og tímabundinn greiðslufrestur lána. Að heimsfaraldrinum loknum tók ferðaþjónustan hraustlega við sér og frá vormánuðum 2022 var fjöldi erlendra ferðamanna hér á landi svipaður og síðasta árið fyrir heimsfaraldur, árið 2019. Nýting gistirýma og bílaleigubíla var mjög góð yfir sumarið og víða var uppselt. Flest fyrirtæki voru því komin í þá stöðu að þurfa að bregðast við auknum ferðamannastraumi og meiri eftirspurn. Það kallaði á nýjar fjárfestingar í hótelum, bílaleigubílum, hópferðabílum, alls kyns afþreyingarstarfsemi og fleiru. Við gátum stutt við vöxtinn með fjármögnun og annarri þjónustu og þannig stuðlað að áframhaldandi vexti greinarinnar.

Útlit er fyrir að mikilvægi ferðaþjónustu muni áfram aukast á næstu árum og að greinin verði áfram einn helsti burðarásinn í íslensku atvinnulífi. Við munum halda áfram að bjóða vaxandi atvinnugrein trausta og góða fjármögnun.

Fjöldi ferðamanna og spá til 2025
2019 2.013.200
2020 486.308
2021 687.789
2022 1.696.785
2023 1.900.000*
2025 2.500.000*
2030 3.500.000**
*Spá Hagfræðideildar Landsbankans
**Spá Ferðamálastofu

Ekki sér fyrir endann á mikilli húsnæðisuppbyggingu

Landsbankinn hefur verið leiðandi í mannvirkjafjármögnun undanfarin ár. Við höfum lagt áherslu á að eiga tíð samskipti við viðskiptavini okkar með það að leiðarljósi að skilja og greina þarfir þeirra.

Á árinu 2022 vorum við áfram umsvifamikil í greininni og fjármagnaði bankinn nýtt íbúðarhúsnæði bæði fyrir almennan markað og leigumarkað. Verkefnin eru víða um land, þó flest séu sem fyrr á höfuðborgarsvæðinu. Bæði er um að ræða fjármögnun íbúða til sölu á almennum markaði og eins fjármögnun leiguíbúða. Framkvæmdafjármögnun vegna óhagnaðardrifinna verkefna hefur aukist verulega samfara miklum krafti í uppbyggingu leiguíbúða og hagkvæmra íbúða fyrir fyrstu kaupendur.

Mikil íbúðauppbygging hefur einkennt greinina undanfarin ár, eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Mikill fjöldi nýrra íbúða hefur komið á markaðinn á liðnum árum, að meðaltali um 3.000 íbúðir árlega á tímabilinu 2019-2022. Lán okkar til byggingarverkefna hafa aukist í takt við þessa miklu aukningu, en hlutdeild Landsbankans í fjármögnun nýrra íbúðaverkefna hefur verið nálægt 50% á þessu tímabili.

Þrátt fyrir þessa miklu aukningu er enn talin þörf á að bæta við framboðið. Þannig gerir ný greining Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ráð fyrir því að árleg þörf fyrir nýjar íbúðir sé ekki undir 3.500 íbúðum næstu fimm árin. Samkvæmt rammasamningi ríkis og sveitarfélaga, sem undirritaður var í júlí sl., er stefnt að því að byggja 35.000 íbúðir á næstu 10 árum, þar af 20.000 á næstu 5 árum. Við gerum ráð fyrir að auka útlán okkar til nýframkvæmda í takt við þessi áform.

Við fjármögnuðum á árinu 2022 byggingu á töluvert fleiri íbúðum en árið 2021 og er fjölgunin mest á fyrri byggingarstigum og vegna lóðakaupa. Leiguíbúðum sem við fjármögnum hefur fækkað nokkuð sem skýrist af því að mikið af þessum íbúðum voru afhentar árið 2022, án þess að sambærileg fjölgun af leiguíbúðum í byggingu kæmi á móti.

Stór byggingarverkefni
44
verkefni
Minni byggingarverkefni
98
verkefni
Íbúðir sem við fjármögnum
4.319
íbúðir
Almennar leiguíbúðir
405
íbúðir

Farsæll sjávarútvegur

Rekstur sjávarútvegsfélaga var farsæll á síðasta ári. Veiðar- og vinnsla gengu almennt vel og eftirspurn var góð á helstu mörkuðum. Góður gangur var jafnframt í fiskeldi og framleiðsla meiri en nokkru sinni fyrr. Eins og oft áður stendur sjávarútvegurinn frammi fyrir áskorunum. Stríð í Úkraínu og efnahagskreppa í Evrópu hafa áhrif á aðfangakeðjur og minnka kaupmátt. Fyrir vikið má búast við minnkandi eftirspurn og lægra verði. Íslenskur sjávarútvegur býr þó yfir mikilli aðlögunarhæfni og sveigjanleika. Félögin munu finna leiðir til að mæta nýjum áskorunum, nú sem áður.

Heldur hefur dregið úr fjárfestingum sem helgast af aukinni óvissu og hækkandi fjármagnskostnaði. Um tímabundið ástand er að ræða og vonir standa til að fjárfestingar taki við sér að nýju strax á árinu 2023. Lánasafn Landsbankans þróast í samræmi við fjárfestingar greinarinnar en Landsbankinn er sem fyrr stór lánveitandi í sjávarútvegi með um 40% markaðshlutdeild. Safnið stóð í stað árið 2022 en við gerum ráð fyrir að það byrji að vaxa að nýju á þessu ári. Við erum eftir sem áður opin fyrir nýjum tækifærum og tilbúin að vaxa með viðskiptavinum okkar.

Fjöldi nýrra viðskiptavina í verslun og þjónustu

Á árinu 2022 bætti bankinn við sig fjölda nýrra viðskiptavina og hélt leiðandi stöðu sinni í þessum atvinnugreinum. Ýmsar áskoranir hafa mætt þessum greinum síðustu ár, eins og miklar hækkanir á hráefnisverði erlendis frá og hækkun launakostnaðar. Þá hafa neysluvenjur Íslendinga verið að breytast þar sem verslun hefur færst úr hefðbundnum verslunum yfir í netviðskipti. Þessar greinar hafa þurft að bregðast við nýjum veruleika með aðlögunarhæfni og seiglu sem hefur almennt gengið vel.

Sterk staða verslunar og þjónustu

Hagfræðideild Landsbankans gaf í desember út ítarlega greiningu á stöðu verslunar og þjónustu. Þar kom meðal annars fram að vöxtur innlendrar verslunar og þjónustu er að stórum hluta háður því hversu margir ferðamenn koma til landsins, hversu lengi þeir dvelja og hversu miklu þeir eyða á ferðalaginu.

Einfalt og fljótlegt að koma í viðskipti

Litlum og meðalstórum fyrirtækjum í viðskiptum við Landsbankann fjölgaði umtalsvert á árinu, en samtals bættust um 1.800 slík fyrirtæki í hóp ánægðra viðskiptavina. Miklu skiptir að það er sérlega einfalt og þægilegt að koma í viðskipti í gegnum rafrænt ferli. Við höfum líka svarað kalli fyrirtækja um aukna sjálfsafgreiðslu og brugðist hratt við nýjum þörfum með nýjum tæknilausnum.

Landsbankinn mældist aftur efstur meðal viðskiptavina á bankamarkaði í Íslensku ánægjuvoginni líkt og þrjú árin þar á undan og allt endurspeglast þetta í góðri markaðshlutdeild á fyrirtækjamarkaði á árinu 2022. 

Við erum vel undirbúin fyrir framtíðina með appi bankans og netbanka fyrirtækja, sem eru bæði sveigjanlegar og hagkvæmar lausnir fyrir viðskiptavini. En þetta snýst ekki bara um kerfin, heldur líka mannauðinn. Þar er Landsbankinn vel í sveit settur og býr að yfirgripsmikilli þekkingu ásamt öflugum útibúum um allt land.

Á árinu 2022 var mesta útlánaaukningin í hópi lítilla og meðalstórra fyrirtækja til byggingarfyrirtækja og fasteignafélaga. Á árinu var slegið met í útlánum til lítilla og meðalstórra fyrirtækja í þessum geirum. Hæstu útlánin eru jafnframt til þessara hópa.

Umtalsverð aukning í fjárfestingum fyrirtækja

Eftir samdrátt hjá fyrirtækjum á tímum heimsfaraldurs tók við uppgangur, einkum í ferðaþjónustu, og reyndist vera töluverð þörf á fjárfestingum. Það á ekki síst við um bílaleigur sem höfðu selt frá sér töluvert af bílum en þurftu nú að endurnýja flotann. Útlán til ferðaþjónustufyrirtækja jukust því hratt á árinu sem átti stóran þátt í því að skila metári hjá Landsbankanum í nýjum útlánum til fyrirtækja.

Útlánasafn fyrirtækja hjá Bíla- og tækjafjármögnun Landsbankans jókst á tímabilinu um 30%, úr 28,8 milljörðum króna í 37,4 milljarða króna.

Hlutfallslega aukningu útlána til fyrirtækja má að nokkru leyti rekja til útlána til ferðaþjónustu, en því til staðfestingar jukust lán hjá Bíla- og tækjafjármögnun til ferðaþjónustu um 45% á milli ára.

Verktakar fjárfestu einnig mikið á árinu 2022 og nam aukning lána hjá Bíla- og tækjafjármögnun til verktaka 39% á milli ára.

Aukning útlána hjá Bíla- og tækjafjármögnun

Ferðaþjónusta
45%
Verktakar
39%
Iðnaður
26%
Annað
10%

Góður árangur Fyrirtækjaráðgjafar

Fyrirtækjaráðgjöf bankans lauk mörgum árangursríkum verkefnum á árinu. Við höfðum meðal annars umsjón með hlutafjáraukningu og skráningu lyfjafyrirtækisins Alvotech á markað. Alvotech varð þar með eina félagið sem er tvískráð á markað á Íslandi og í Bandaríkjunum, en þar er félagið skráð á Nasdaq New York. Fyrirtækjaráðgjöf hafði einnig umsjón með sölu og útgáfu skuldabréfs Alvotech að fjárhæð 70 milljónir Bandaríkjadala í desember. Undir lok árs var Alvotech orðið stærsta félagið í Kauphöllinni og spennandi vegferð framundan.

Fyrirtækjaráðgjöf var ráðgjafi kaupenda í stærstu erlendu fjárfestingu síðari ára á Íslandi þegar alþjóðlega sjóðastýringarfyrirtækið Ardian keypti Mílu af Símanum. Söluverðið var tæplega 70 milljarðar króna.

Við höfðum einnig umsjón með nokkrum vel heppnuðum söluferlum á árinu. Eldum rétt var selt til Haga og bætast matarpakkarnir vinsælu við þjónustuframboð Haga. Þá var lokið við sölu á elstu sælgætisgerð á Íslandi, Freyju, til Langasjávar en Freyja hafði verið í eigu sömu fjölskyldunnar í 40 ár.

Farsælu samstarfi við Síldarvinnsluna var haldið áfram þar sem Fyrirtækjaráðgjöf aðstoðaði félagið við kaup þess á útgerðarfélaginu Vísi í Grindavík, í viðskiptum að andvirði 31 milljarðs króna.

Við aðstoðuðum félagið Amaroq Minerals, auðlindafélag sem stefnir á að finna gull og aðra verðmæta málma á Grænlandi, við hlutafjáraukningu í október. Hlutafjáraukningin mun leika lykilhlutverk í að ná frekari framþróun í eignasafni félagsins á Grænlandi.

Einnig sáum við um töku nýrra skuldabréfaflokka til viðskipta í Kauphöll og má þar helst nefna græna skuldabréfaflokka Ljósleiðarans, Árborgar og Lánasjóðs sveitarfélaga.

Vönduð og alhliða þjónusta frá upphafi til enda

„Það ríkir nokkuð hörð samkeppni á þessum markaði. Bankarnir, endurskoðunarfyrirtækin og smærri fjármálafyrirtæki bjóða upp á fyrirtækjaráðgjöf og einnig er nokkuð um sjálfstæða ráðgjafa.

Þá er mikilvægt að geta aðgreint sig með því að vinna verkefnin á vandaðan og faglegan hátt og skila árangri fyrir okkar viðskiptavini. Verkefnin koma heldur ekki upp í hendurnar á okkur og felst hluti af okkar starfi í að láta vita af okkur og viðhalda góðum tengslum út á markaðinn. Okkar viðskiptavinir kunna vel að meta að hjá bankanum fá þeir vandaða og alhliða þjónustu, frá upphafi til enda, og eigum við oft gott samstarf við önnur svið og deildir í okkar verkefnum.

Vistvænni starfsemi

Áframhaldandi þróun á tæknilausnum stuðlar að minnkandi kolefnisspori bankans og viðskiptavina okkar þar sem þeir geta í flestum tilfellum gengið frá undirritunum rafrænt með tilheyrandi hagræðingu fyrir bæði viðskiptavini og starfsfólk bankans.

Sífellt stærri hluti af útlánum Bíla- og tækjafjármögnunar Landsbankans til fyrirtækja eru vegna umhverfisvænni bíla og tækja. Á árinu 2022 var rúmlega 45% af heildarfjárhæð allrar bílafjármögnunar til fyrirtækja vegna kaupa á slíkum tækjum. Á árinu 2022 voru fólksbílar sem teljast vera umhverfisvænni 74% af öllum nýskráðum bílum. Sú þróun endurspeglast í því að sífellt stærra hlutfall af lánasafninu er vegna rafmagns- eða tvíorkubíla, bæði vegna birgðafjármögnunar bílaumboða og í bílakaupa viðskiptavina.

Átján fyrirtæki hafa fengið sjálfbærnimerkið frá upphafi

Við leggjum mikla áherslu á sjálfbærni og viljum aðstoða okkar viðskiptavini við að ná árangri á því sviði. Það gerum við m.a. með því að fjármagna sjálfbær verkefni og veita sjálfbærnimerki Landsbankans. Sjálfbærnimerkið er veitt þeim fyrirtækjum sem uppfylla skilyrði um sjálfbærni sem sett eru fram í sjálfbærri fjármálaumgjörð bankans og standast strangar kröfur um umhverfisvæn verkefni.

Nánar er fjallað um sjálfbærnistarf bankans í kaflanum um sjálfbærni.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur