Árið 2022 jukust útlán Landsbankans til fyrirtækja um 92 milljarða króna, eða um 14%. Ef litið er framhjá gengisáhrifum var aukningin 80 milljarðar króna sem jafngildir um 10% útlánavexti. Mikill vöxtur var í bíla- og tækjafjármögnun fyrirtækja og við vorum sem fyrr umsvifamikil í fjármögnun íbúðabyggingar. Þannig lögðum við okkar af mörkum til að stuðla að auknu framboði á nýju húsnæði fyrir stækkandi samfélag.
Markaðshlutdeild bankans meðal fyrirtækja sem skila ársreikningi var 33,1% í lok árs 2022 sem er svipað og árið 2021. Hlutdeild okkar í heildarútlánum til fyrirtækja er áfram um 40%. Fyrirtækjum í viðskiptum við bankann fjölgaði um hátt í 2.000 á árinu og er skýringin að okkar mati einkum sú að við höfum bætt enn frekar þjónustu við lítil og meðalstór fyrirtæki.
Þrátt fyrir hækkandi vaxtastig erum við sem fyrr sterkur lánveitandi á byggingarmarkaði og umsvifin þar eru áfram mikil. Við sjáum líka að það er góður gangur í útflutningsgreinum, ferðaþjónustunni þar á meðal, en stjórnendur fyrirtækja hafa varann á við ákvarðanir um stórar fjárfestingar.
Við stöndum með ferðaþjónustunni
Hagvöxtur á Íslandi veltur mikið á ferðaþjónustunni og því er mikilvægt að á árinu 2022 hafi atvinnugreinin náð vopnum sínum aftur eftir heimsfaraldurinn.
Ferðaþjónusta var í mikilli vörn á árunum 2020 og 2021 vegna heimsfaraldursins og við unnum náið með viðskiptavinum að því að takast á við mikinn tekjusamdrátt. Úrræði sem við gátum boðið voru einkum stuðningslán, viðbótarlán og tímabundinn greiðslufrestur lána. Að heimsfaraldrinum loknum tók ferðaþjónustan hraustlega við sér og frá vormánuðum 2022 var fjöldi erlendra ferðamanna hér á landi svipaður og síðasta árið fyrir heimsfaraldur, árið 2019. Nýting gistirýma og bílaleigubíla var mjög góð yfir sumarið og víða var uppselt. Flest fyrirtæki voru því komin í þá stöðu að þurfa að bregðast við auknum ferðamannastraumi og meiri eftirspurn. Það kallaði á nýjar fjárfestingar í hótelum, bílaleigubílum, hópferðabílum, alls kyns afþreyingarstarfsemi og fleiru. Við gátum stutt við vöxtinn með fjármögnun og annarri þjónustu og þannig stuðlað að áframhaldandi vexti greinarinnar.
Útlit er fyrir að mikilvægi ferðaþjónustu muni áfram aukast á næstu árum og að greinin verði áfram einn helsti burðarásinn í íslensku atvinnulífi. Við munum halda áfram að bjóða vaxandi atvinnugrein trausta og góða fjármögnun.