Snjöll og sveigjanleg þjónusta sem einfaldar lífið
Við bjóðum snjalla og sveigjanlega þjónustu til að einfalda líf viðskiptavina okkar og erum til staðar þegar á reynir.
Aukin ánægja með þjónustu bankans
Ánægja með þjónustu bankans hefur farið vaxandi undanfarin ár. Við heyrum það á viðskiptavinum okkar, við sjáum það í aukinni markaðshlutdeild og á því að Landsbankinn mældist aftur efstur í Íslensku ánægjuvoginni árið 2022 hjá viðskiptavinum í bankaþjónustu. Þetta er fjórða árið í röð sem bankinn fær þessa eftirsóttu viðurkenningu.
Virkum viðskiptavinum fjölgaði um rúmlega 6.000 á árinu 2022 og undir lok árs var markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði 40,1%, samkvæmt gögnum bankans, og hefur aldrei verið hærri.
Árangur bankans byggir á skýrum markmiðum og stefnu. Það skiptir okkur miklu máli að viðskiptavinir okkar séu ánægðir með þjónustuna og að lausnirnar sem við bjóðum upp á séu hentugar og einfaldi lífið.
Dregur úr eftirspurn eftir íbúðalánum
Við leggjum sem fyrr áherslu á að bjóða hagstæð kjör á íbúðalánum og þótt vaxtahækkanir og aðrar aðgerðir Seðlabanka Íslands hafi dregið úr eftirspurninni, sér í lagi seinni hluta ársins, var hún enn töluverð. Samtals veittum við um 178 milljörðum króna í ný íbúðalán til um 6.600 einstaklinga og fjölskyldna. Af þeim voru fyrstu kaupendur um 40%.
Á árinu hækkuðu stýrivextir Seðlabankans um 4 prósentustig en á sama tíma hækkuðu vextir breytilegra íbúðalána Landsbankans um 3,3 prósentustig. Fastir vextir íbúðalána bankans til 3 ára hækkuðu um 2,85 prósentustig.
Í byrjun árs var hlutfall þeirra sem völdu fasta og breytilega vexti nokkuð jafnt en þegar leið á árið fjölgaði þeim sem völdu breytilega vexti. Þessi þróun er skiljanleg enda hefur bilið á milli breytilegra og fastra vaxta minnkað töluvert.
Vanskil íbúðalána eru áfram sögulega lág en um 0,1% lána eru í yfir 90 daga vanskilum. Þrátt fyrir hækkun vaxta og hærri greiðslubyrði lána með breytilega vexti hafa vanskil ekki aukist.
Aukin ásókn í verðtryggð lán
Um mitt árið tóku gildi ný viðmið við útreikning á greiðslubyrðarhlutfalli Seðlabankans. Með nýju viðmiði sem og hækkun óverðtryggðra vaxta jókst eftirspurn eftir verðtryggðum íbúðalánum þegar leið á árið. Í lok árs 2022 var hlutfall nýrra verðtryggðra lána um 21% en til samanburðar var hlutfallið 7% í upphafi árs.
Ef fram heldur sem horfir má reikna með að áfram verði aukin ásókn í verðtryggð lán enda greiðslubyrðin lægri en á óverðtryggðum lánum. Bankinn lækkaði árið 2022 hámarkslánstíma verðtryggðra lána í 25 ár. Það var gert með hliðsjón af því að við útreikning á greiðslubyrðarhlutfalli Seðlabankans skal miða við 25 ára lánstíma og vegna þess að með styttri lánstíma minnkar áhætta lántaka, einfaldlega vegna þess að það tímabil sem verðtryggt lán safnar verðbótum er styttra.
Útibúin vinna saman og þjónustan verður betri
Við leggjum áherslu á að bjóða góðan aðgang að ráðgjöf og geta viðskiptavinir pantað tíma í ráðgjöf og viðtöl í gegnum síma, á fjarfundi eða með því að mæta á staðinn. Ráðgjöfin er veitt af öflugu og reynslumiklu starfsfólki um allt land. Álagið er mismunandi í útibúum en með því að hjálpast að og vinna verkefnin óháð staðsetningu getum við bætt þjónustu, stytt biðtíma og aukið aðgengi viðskiptavina að sérþekkingu. Um leið verða störfin í útibúunum fjölbreyttari og hefur starfsfólk þar tekið þessum möguleika fagnandi.
Um 60% af ráðgjafarsamtölum sem viðskiptavinir bóka eru veitt af starfsfólki á landsbyggðinni. Sterkur hópur starfsfólks víðs vegar um land sinnir t.a.m. íbúðalánaráðgjöf fyrir viðskiptavini óháð því hvar þeir eru staðsettir. Það eru því meiri líkur á að viðskiptavinur sem óskar eftir ráðgjöf um íbúðalán fái samband við starfsfólk bankans á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.
Við erum stærsti viðskiptabanki landsins með flesta viðskiptavini. Á árinu leituðu fleiri en 350.000 viðskiptavinir til starfsfólks í útibúum eftir ráðgjöf og/eða til að sinna viðvikum. Á sama tíma skráðum við tæplega 300.000 símtöl í þjónustuverið okkar.
Vönduð íbúðalánaráðgjöf
Okkur þykir ánægjulegt hversu margir viðskiptavinir bankans leita til okkar um ráðgjöf um hvort æskilegt sé að endurfjármagna núverandi íbúðalán. Margir vilja t.a.m. vita hvort hægt sé að fá hagstæðari kjör, breyta uppsetningu lána eða lánstíma með það að markmiði að spara sér vaxtakostnað. Hlutfall þeirra sem endurfjármögnuðu lán sín á árinu er rétt rúmlega 50% eða um helmingur þeirra sem tóku nýtt íbúðalán á árinu.
Þau sem kaupa og selja fasteign kanna oft þann möguleika að halda í lánin og flytja á milli eigna, sér í lagi ef lánin eru með föstum vöxtum. Undanfarin ár dró verulega úr fjölda beiðna um veðflutning en þessum beiðnum fjölgaði aftur 2022 sem endurspeglar breytt vaxtaumhverfi.
Rafmagnsbílar vinsælir
Viðskiptavinir Landsbankans keyptu fleiri rafmagnsbíla árið 2022 en á árunum á undan. Á árinu 2020 voru um 6% bílalána vegna kaupa á rafmagnsbílum, árið 2021 voru þau 14% en árið 2022 var hlutfallið orðið 26%.
Fleiri nota Aukakrónur í símanum
Aukakrónur eru öflugasta fríðindakerfi landsins. Það er einfalt að safna Aukakrónum með því að nota kreditkortið sitt hjá samstarfsaðilum okkar. Á árinu 2022 söfnuðu viðskiptavinir Landsbankans 524 milljónum Aukakróna og keyptu vörur og þjónustu hjá samstarfsaðilum fyrir 526 milljónir Aukakróna.
Frá og með nóvember 2022 gátu viðskiptavinir notað símann sinn til að borga með Aukakrónum og jókst notkunin um meira en helming í kjölfarið.
Nánar er fjallað um Aukakrónur í símanum og aðra stafræna þjónustu í kaflanum um snjallari bankaþjónustu.
Viðskiptavinur fær Aukakrónur af allri innlendri veltu og einnig afslátt í formi Aukakróna frá samstarfsaðilum. Samstarfsaðilum fjölgaði um 20 á árinu og voru í árslok yfir 200 talsins um allt land. Samstarf við Já.is auðveldar viðskiptavinum að sjá hvort þeir geti notað Aukakrónurnar sínar til að kaupa vöruna eða þjónustuna sem þeir leita að.
Allar mælingar sýna að mikil ánægja er með Aukakrónur, bæði meðal viðskiptavina og samstarfsaðila. Viðskiptavinir sem nýta sér Aukakrónur eru bæði ánægðari og tryggari en aðrir.
Auknar vinsældir gjafakorta Landsbankans
Gjafakort Landsbankans eru tilvalin gjöf því viðtakandinn getur alltaf fengið eitthvað við sitt hæfi. Viðskiptavinir geta nýtt sér tvo gjafakortasjálfsala á höfuðborgarsvæðinu eða valið um í hvaða útibú og afgreiðslur þeir vilja sækja kortin. Fyrirtæki geta fengið aðstoð við stærri pantanir.
Gjafakortin eru sífellt vinsælli og á árinu 2022 jókst sala þeirra um 8,5% á milli ára. Fjárhæðirnar hækkuðu einnig en á árinu voru gjafakort seld fyrir rúmlega tvo milljarða króna, um 20% hærri fjárhæð en árið áður.
Frá miðjum nóvember til aðfangadags 2022 jókst sala til fyrirtækja um 13,5% aukning milli ára og 5,5% til einstaklinga.
Gjafakortasalan fer að mestu fram í nóvember og desember en í ár dreifðist álagið betur milli mánaða en í fyrra. Nú fór um 28% af sölu ársins fram í nóvember og um 52% í desember. Á árinu 2021 fór um 70% af sölunni fram í desember.
Sparað með appi
Spara í appi er frábær leið til að spara. Með því að spara í appi fá viðskiptavinir hagstæðustu vexti sem eru í boði á óbundnum innlánsreikningum hjá okkur, óháð fjárhæð. Til viðbótar við þessi samkeppnishæfu kjör geta viðskiptavinir sett sér eigið sparnaðarmarkmið og valið þá sparnaðaraðferð sem hentar þeim best. Það er líka vinsælt að bjóða vinum eða fjölskyldu að taka þátt í sparnaðarmarkmiðum með innborgunum. Allir geta fylgst með sparnaðinum í gegnum appið.
Þegar sparað er í appinu stofnast reikningurinn Markmið sem er óverðtryggður og óbundinn og greiðast vextir mánaðarlega.
Hægt er að velja um fjórar sparnaðaraðferðir í Spara í appinu. Viðskiptavinir geta millifært hvenær sem er inn á reikninginn, þeir geta líka millifært sjálfkrafa ákveðna upphæð í hverjum mánuði eða sparað hluta af launum sem getur komið sér vel fyrir unga fólkið sem vinnur hluta úr ári. Svo er líka hægt að láta ákveðna fjárhæð af hverri debetkortafærslu renna í sparnaðinn. Allt eru þetta leiðir sem auðvelda viðskiptavinum að byggja upp sparnaðinn á skemmtilegan hátt og nú á enn betri kjörum.
Aukin kortavelta
Einkaneysla jókst á árinu, eins og m.a. sést á því að kortavelta hjá viðskiptavinum jókst um 26% á milli ára.
Kortaveltan jókst þó enn meira erlendis, eða um 69% á milli ára, og greinilegt að Íslendingar voru ferðaþyrstir. Um leið fengum við fleira ferðafólk til landsins og við reiknum með að það haldi áfram að streyma hingað.
Betri kortaþjónusta og auðveldari vöruþróun
Landsbankinn hefur valið Valitor, nú Rapyd, sem útgáfu- og vinnsluaðila fyrir öll sín kort, debet- og kreditkort. Á árinu var vinnsla debetkorta flutt úr kerfi RB og yfir í kerfi Rapyd. Vinnsla og útgáfa debet- og kreditkorta verður með sama sniði, þjónusta við kortin verður í sömu kerfum, vöruþróun verður auðveldari og debetkorta. Í þessu felst einnig hagræðing sem mun styðja við betri þjónustu við viðskiptavini.
Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.